Mánaðarsafn: desember 2005

Þorláksmessumorgun í Niðurlöndum

ÚtijólatréÞað er orðið bjart úti klukkan átta þegar við löbbum af stað í skólann. Það sitja smáfuglar úti á jólatrénu okkar og syngja fyrir okkur og það er lykt af rigningu í loftinu. Ekki alveg jólalegasta útlit í heimi. Hollendingar eru heldur ekkert að skreyta of mikið. Nokkur ljós sjást hér og þar á stangli. Uppáhalds Tælenski veitingastaðurinn á leiðinni í skólann er þó búinn að setja englahár og jólakúlur á milli Búddastyttanna í glugganum. En við erum í jólaskapi.

Sápa

Börnin okkar eru búin að vera að kvarta undan því að það sé aldrei sápa á salernunum í skólunum. Við höfum ekki verið mjög ánægð með þetta, það er búið að troða því inn hjá þeim heima, í skóla og leikskóla að þvo á sér hendurnar með sápu. Svo í dag spyr KIH skólastjórann um sápuleysið og kemst að því að sápan er í kennslustofunum og börnin verða að biðja um hana. Það er ekki hægt að hafa hana á klósettinum, hún er bara tekin.

Jólaball

Heimilislífið hefur verið skemmtilegt upp á síðkastið, á föstudaginn voru allar systurnar fjórar í mat ásamt móður sinni heima hjá okkur og þær fóru svo saman til Brussel í leiðangur á jólamarkað.
Við Mundi vorum því graseklar á laugardag og sunnudag sem var sérlega náðugt.

Á sunnudeginum fórum við með þrjú börn til Utrecht á jólaball Íslendingafélagsins og Íslenskuskólans. Á leiðinni er hringt í mig og ég er beðinn um að vera jólasveinn. Svona eins og venjulega er búið að vera að leita að jólasveini vikum saman og enginn hefur boðið sig fram.

Áður en ég veit af er ég staddur á sokkaleistunum í 12 stiga hita á regnblautri stétt klæddur rauðum flísbuxum og treyju með strítt gerfiskegg framan í mér. Veðrið er ekki mjög jólalegt en mótökurnar eru það. Við Orri frá Rotterdam erum Gluggjagægir og Skyrgámur og fáum sem slíkir hlýjar móttökur. Einhverjar áhyggjur eru um að hollenski tollarar hafi gert jólasveinanammið upptækt og börnunum er greinilega létt þegar það er dregið upp úr pokum nokkrum jólalögum síðar.

Ungverjar

Bakstursdagur í dag, eftir smákökusort númer tvö erum við ekki í skapi til að elda. Við hingjum í vinafólk okkar með góðum fyrirvara að íslenskum sið og ákveðum að hittast á frönskum veitingastað í nágrenninu eftir korter. En við erum í Planlandi, veitingastaður eitt, tvö og þrjú eru upppantaðir, eiga ekki pláss fyrir sjö. Sennilega voru öll borðin pöntuð í síðustu viku. Á endanum tökum við strikið í átt að Goudenregenplein því ég hef hjólað fram hjá ungverskum veitingastað þar og veit af grískum og pizzastað þar líka. Ungverski veitingastaðurinn reynist þvílíkt vinalegur, borð eru færð til til að koma okkur fyrir, börnin mega ana um allt og trufla tónlistarmann staðarins sem spilar Mozart, Ungversk þjóðlög, Sinatra og jólalög á cymbalom. Reyklaust borð er samt greinilega ekki inni í myndinni.

Þetta er nógu „kitch“ til að vera sjarmerandi. Fínt málað leirtau á veggjunum en búið að kvarnast úr diskunum sem bornir eru fram fyrir okkur. Á einum veggnum er mynd af sporvagni með auglýsingu frá staðnum á.

Hljómsveit staðarins tekur sér reglulega hlé, röltir með GSM símann sinn út í horn, sendir SMS og reykir svolítið. Á endanum kemur hann að borðinu okkar og bíður okkur geisladisk. Hann er búinn að syngja fyrir stelpurnar, spila barnalög og óska brjóstmylkningnum „Eet smakelijk“ sov við kaupum auðvitað heimabrennda diska með illa prentuðum myndurm frá Budapest.

Maturinn er líka góður, einfaldur, bragðgóður og matarmikill. Ungverska plómubrandýið er gott og þjónustan reynist vel. Þjónninn kemur að borðinu okkar til að tilkynna að systur hans í eldhúsinu „finnist ekki gott að við séum að kaupa þurran kjúkling og hrísgrjón fyrir börnin.“ Við hlýðum ráðum eldhússysturinnar og kaupum franskar og majó með í staðinn. Þjónustufólkið kljáir við kornabarnið og þegar börnin fara að falla grátandi í gólfið er eitt þeirra komið í fangið á þjóninum. Klukkan er margt þegar við löbbum heim, svo margt að Sinterklaas gleymist næstum því.

Rafmagnsleysi og gashitarar

Rafmagnið fór í gærkvöld og kom ekki aftur í fjórar klukkustundir. Þá gerðum við nokkrar uppgötvanir:
Gashitarinn sem hitar allt vatn í húsinu gengur fyrir rafmagni.
Húsið okkar er illa einangrað og helst illa á hita.
Það er gott að hafa eldstó.
En versta uppgötvunin var að við höfðum engar leiðbeiningar fengið með gashitaranum og það þarf að gera EITTHVAÐ til að setja hann í gang eftir að loginn í honum slökknar. Það var því köld fjölskylda sem safnaðist saman framan við gaseldavélina þennan morguninn.

Charles Bukowsky og fleira skemmtilegt

Bukowsky les ljóð og móðgar fólk, ‘The more crap you believe, the better off you are’

Þetta er fengið héðan og þar má líka ná í fullt af Noam Chomsky spoken word textum.

Í strætó

Strætóbílstjórinn er miðaldra vel til höfð kona svona fyrir utan grifflurnar. Hún bíður góðan daginn hátt og snjallt til allra farþega og þegar einn farþeginn hóstar aftast í vagninum hrópar hún upp „Gesontheit“. Á leiðinni flautar hún rammfalskt, ég er enn að reyna að þekkja lagið þegar við nálgumst stoppistöðina mína. Ég brosi til hennar þegar ég fer út og þakka fyrir mig, hún hrópar „Alstublieft“ á eftir mér og keyrir af stað áður en hurðirnar á strætó ná að lokast.