Mánaðarsafn: júní 2006

Hættur á reiðhjóli

Það er hættulegt að hjóla í Hollandi.

Ekki út af umferðinni, allir gefa hjólum forgang.
Það lærist fljótlega þegar þú færð hjólafólk berjandi í bílinn hjá þér ef þú óvart stoppar á hjólastíg.
Eða þegar hjólað er á þig þegar þú gengur yfir hjólastíg.
Þess þá heldur þegar þú næstum keyrir niður kjarnafjölskylduföðurinn, með barnið í stól á stýrinu og eiginkonuna á bögglaberanum með hundana í ól, hjólandi gegn umferðinni inn á einstefnugötu á rauðu ljósi.

En þolinmæðinni eru takmörk sett…

Síðustu helgi var ég sektaður í Scheveningen fyrir að hjóla á breiðgötunni, gott og blessað. Löggan var mjög kurteis, benti mér á að ég gæti mótmælt sektinni eftir að ég fengi hana senda heim og sektaði mig ekki fyrir að vera skilríkjalausan.

En svo er ég með fallegan hnefamyndaðan marblett á upphandleggnum eftir að glaður skokkari kýldi mig niður af hjólinu á malarstíg við ströndina. Ég held að hann hafi verið að setja mér að það mætti ekki hjóla á þessum stíg.

Jabberwocky

Hollenska fjármálaráðuneyið.

Ég sit á brotinni masonítplötu á gólfinu í kjallaranum drekkandi bjór. Í kjallaranum er skólasýning listaskólanema í den Haag og ekkert annað. Á móti mér situr stúlka sem flytur mér Jabberwocky á Pólsku.

Brzdęśniało już; ślimonne prztowie
Wyrło i warło się w gulbieży;
Zmimszałe ćwiły borogowie
I rcie grdypały z mrzerzy…

Hún lofar að þrjár pólskar vinkonur sínar sem hún kenndi Jabberwocky fyrir verkið sitt muni koma til den Haag á miðnætti með sinn líterinn af pólskum vodka hver.

Ég er þreyttur, nýbúinn að bera búslóðina okkar út í gám og senda hann burt, jafnvel þessar fréttir ná ekki að kæta mig til miðnættis.