Mánaðarsafn: febrúar 2006

Leigubíll

Einn í Búlgaríu.

Veifa leigubíl út á horni til að fara á hótelið. Leigubílstjórinn keyrir af stað í rétta átt til að byrja með en svo fara að renna á mig tvær grímur, við erum komnir gegnum miðbæinn og erum örugglega að fara í hring. Ég verð órólegur í sætinu og bílstjórinn verður órólegri eftir því sem ég verð órólegri.
Allt í einu stoppar hann og bendir, „Grand Hotel Sofia, OK?“
Ég er með 5 leva seðil í höndunum, mælirinn segir 3. Hann tekur peninginn, réttir mér smápening og segir mér að það séu tvö leva, auðvitað er það bara eitt. Keyrir svo hratt í burt, sennilega ánægður með fenginn, 2 auka leva heil 81 króna.

Ég labba kílómeter til baka, það er gott veður og garðurinn sem ég er staddur í er skemmtilegur, tek svo annan leigubíl til baka á hótelið,

Hurðaskellir og Stútur

Þetta er gaman, hér rífast menn og skammast, ganga út af fundum og skella hurðum. Mun skemmtilegra en flatneskjan í Hollandi 🙂

Ég er einn í Sofia, heimför var frestað þangað til seinni partinn á morgun. Nú stefni ég á Grand Hotel Sofia og fer svo í göngutúr og reyni að villast í miðbæinum, því miður er of dimmt fyrir myndavélina.

Enn í Sofia

Það er allt í upp í loft á skrifstofunni sem við höfum. 20 manns eru að setja upp tölvur og það er verið að halda námskeið. Ég flý niður í bæ.

Ég stend við afgreiðsluborð þegar par kemur inn í búðina. Myndarleg stúlka, um 25 ára í síðum pels og dýrum fötum kemur inn í búðina á hendinni á manni sem er að minnsta kosti helmingi eldri en hún. Sugardaddy. Þeir eru víst ófáir í Sofia segja þeir félagar mínir.

Á leiðinni á hótelið labba ég fram hjá lítilli kirkju með gulllögðu hvolfþaki sem stendur upp á lítilli hæð. Ég labba upp hólinn og inn í kirkjuna, í anddyrinu eru fallegar skreytingar og íkon til sýnis. auðvitað líka logandi kerti. Ég þori ekki inn í kirkjuna sjálfa þar sem ég sé dánartilkynningu hangandi á töflu og sný við og labba út. Neðan við hólinn, beint á móti kirkjudyrunum er skilti með mynd af hálfnakinni stúlku og blikkandi neonljós. Búlgörsk strippbúlla, kannski kirkjan geti vakið siðferðið hjá þeim sem koma út af strippbúlluni?

Algörlega brálaðir rússneskir/lettneskir íþróttamenn

Ekkert viðkomandi Búlgaríu. En hér er vídeó sem er tekið af bráluðum austur evrópubúum. http://www.videobomb.com/posts/show/46

Búlgaría

Það er þriðjudagur og ég er í Sofia sendur út með stuttum fyrirvara að hjálpa til við uppsetningar á búðarkössum. Loksins er ég í Búlgaru og það er ekki þjóðhátíð. Það er 10 stiga hiti og sólskin á flugvellinum sem er mun betra en fjögra stiga hiti og þoka í Hollandi.

Umferðin á leiðinni niður í bæ er býsna þung en leigubílstjórinn keyrir með aðra hendina út um gluggann og veifar hinni milli þess sem hann lemur á flautuna og treður sér í ósýnilegar glufur í umferðinni svo ég kemst nokkuð hratt á milli.

Við Suzanne sem er Navision serfræðingur hjá partnernum okkar förum út að reykja eftir að hafa komið prentararæskni í gang. Suzanne reykir en ég klappa ræsknislegum ketti sem liggur á gluggakistu og sleikir sólina og stendur örugglega á sama um alla prentara.

Lítill heimur

Lourdes og Joseph, vinafólk Kristínar sem hún kynntist í Puerto Rico komu í heimsókn til okkar um helgina. Hann er major í Ameríska hernum og er staðsettur í Þýskalandi svo það tók þau bara fjóra tíma að koma til okkar og svo einn og hálfan til viðbótar að finna rétta húsið. Það er skemmtilegt hvað heimurinn er lítil.

Þau eiga tvö börn, átta og tólf ára sem náðu mjög vel saman við okkar og allt var ljómandi skemmtilegt, við gengum á ströndina, fórum á laugardeginum í margra klukkutíma gönguferð um Amsterdam og fórum svo á sunnudeginum á Escher safnið í Den Haag og þvældumst aðeins um í miðbænum áður en þau fóru heim. Börnin okkar voru alveg búin á því eftir allar þessar gönguferðir og eru enn að jafna sig, þau hin blésu varla úr nös við höfum sennilega haldið aftur af þeim.

Þetta var allt alveg ljómandi gaman. Ákveðinn hápunktur ferðarinnar var heimsókn á Hard Rock cafe í Amsterdam. Ekki það að HRC sé svona skemmtilegt, við KIH vorum á mörkunum að nenna að fara en létum okkur hafa það það sem þetta var mikið atriði hjá börnunum og Joseph, þau safna sko glösum.

En, á Hard Rock hleypur Joseph niður og beint á félaga sinn úr hernum með eiginkonu einhvers annars, tvö ein á Hard Rock í Amsterdam. Þau urðu frekar undarleg á svipin en Joseph bauð þeim víst bara hressilega góðan daginn. Eitthvað var um rauð andlit og Lourdes sá víst lítið framan í konuna sem er víst vinnufélagi hennar þegar hún fór niður stigann. Ég held að þeim hjónaleysunum hafi ekki fundist jafn skemmtilegt hvað heimurinn er lítill.

Den Haag Centraal Station

Miðaldra Arabísk kona með hijab stendur við framan við mig og bíður eftir rútunni. Talar í GSM síma sem hún ber upp að skuplunni og hváir oft við.