Mánaðarsafn: júlí 2006

Down the highway

Sneek, Joure, Heerenveen, Zwolle, Ermelo, Amersfoort, Utrecht, Waddinxveen, Rijsweik, Den Haag. Kannski það sé skynsamleg ástæða fyrir því að það séu ekki sungin lög um Hollenska þjóðvegi. Bob Dylan passaði samt ágætlega

Well, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Yes, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Lord, I really miss my baby,
She’s in some far-off land.

Ég fór löngu leiðina heim frá Sneek. Við vorum í afmælisfagnaði sem fór fram við Sneekermeer, lítið vatn rétt utan við bæinn. Deginum var varið í ró og næði á vatnsbakkanum þar sem Fríslendingar fjölmenntu. Það var heitt og fallegt veður og vatnið var volgt svo við Ilse gátum synt yfir vatnið.

Kvöldið áður enduðum við Guðlaug úti á lífinu í Sneek, sem reyndist vera merkileg lífsreynsla. Einn barinn var fullur af körlum sem stóðu í pörum og skiptust á að tala við konurnar sem komu inn. Sennilega búnir að stúdera alt.seduction.fast til hins ítrasta. Sá næsti var merkilegur fyrir sakir „veggs hinna vongóðu“ sem var bekkur við vegg barsins sem fólk prílaði upp á til að skaka sig á og á síðasta pöbbnum var nokkurs konar Andre Hazes kareooke. Já ég mæli eindregið með skemmtanalífinu í Sneek.

Ég er einn í Hollandi og þarf að finna mér eitthvað til að hafa fyrir stafni um helgar. Þessi helgi var afmæli og næturlífið í Sneek. Næturlíf síðustu helgar var í Brussel. Mágkona mín elskuleg var þar á frönskunámskeiði og ég fékk að gista hjá henni og vinkonu hennar í næstu götu við fæðingarstað Jacques Brel. Við fórum á markað, héngum á la Grand Place, skoðuðum jafnréttisstefnu í verki og ég skemmti mér konunglega. Ég held að ég haldi áfram í Belgíu á næstunni bæði Bruges og Ghent eru í næsta nágrenni og síðustu helgi hófst Gentse Feesten í Ghent sem á að vera risa götuhátíð í einni af fallegustu borgum Evrópu.

Jökull Máni á afmæli

Stóri strákurinn minn hann Jökull Máni á átta ára afmæli í dag. Mér finnst svo skelfing stutt síðan að ég labbaði ringlaður út af kvennadeildinni eftir að hafa haldið á honum í fyrsta sinn. Mér finnst líka sérlega leiðinlegt að geta ekki, annað árið í röð, verið með honum á afmælisdeginum. Hann var kátur með daginn svo ég er það líka.

Hlutir sem er gott að vita á línuskautum

Það er auðveldara að fara niður brekku en upp.
Brot í malbiki eftir trárætur eru tilvalin til að stoppa skauta.
Það er mun mýkra að detta á gras en malbik.

Aftur í Bucharest

Leigubílar í Austur Evrópu hlýða eigin efnahag, þar gildir hraðverðbólga. Ég er búinn að vera rukkaður um allt frá einu til sjö lei fyrir kílómeterinn. Sá sem ætlaði að rukka mig um 7 skipti reyndar um skoðun eftir að ég opnaði hurðina og ætlaði að fara út úr bílnum en skammaðist svo út í mig á Rúmönsku alla leiðina. Ég svaraði líku líkt á Íslensku og við vorum perluvinir þegar komið var á hótelið. Svo hjálpar það ekki til að Rúmenar eru í miðjum klíðum að skipta um gjaldeyri og skera fjögur núll af. Svo fyrir 20 lei leigubílaferð borga ég með 50 lei seðli og fæ 300.000 til baka.

Ég gat ekki stillt mig í kvöld og tók leigubíl niður á Piata Constitutiei að sjá aftur eitt af stærstu og ljótustu húsum í heimi. Labbaði í skugga þess niður Bulevardul Unirii á Piata Unirii, horfandi á fólk á stefnumótum undir hnetutrjám, tóma gosbrunna, flækingshunda í húsasundum og betlandi sígauna. Umferðarþvælurnar á hringtorgunum eru enn skelfilegri á fæti en í einum af bílunum sem troðast fram og aftur en ég slapp lifandi. Því miður er Kristín með myndavélina en hér eru myndir af leiðinni í boði einhvers annars.