Icelandic Airwaves 2022

Loksins, loksins var aftur komið Icelandic Airwaves, og þetta árið var ég ekki á ráðstefnu, og heldur ekki á bak við barinn á Gauknum og gat farið á flakk. Það var margt að sjá, mjög margt sem hefði verið gaman að sjá og það var fullt af böndum sem ég hefði viljað ná á flakkinu en það er hlutinn af sjarmanum við Airwaves.

Fimmtudagskvöld

Það var að sjálfsögðu á stefnuskránni að byrja heima á Gauknum og flakka eitthvað á milli áður en ég færi að sjá það band sem mig hlakkaði mest að sjá. Amyl and sniffers sem voru að spila í Listasafninu, Það voru hins vegar komnar raðir við Gaukinn og Listasafnið þegar ég kom niður í bæ og því ákvað ég að fara inn á Listasafn og vera þar þangað til Amyl væri búin. Þar var mikið um fallegt og skemmtilegt fólk en frændsystkyni mín Hrafnhildur, Heiða og Elías Tjörvi báru samt af.

Gugusar

Gugusar var fyrst á svið, ég held að ég hafi bara heyrt lagabrot með henni í útvarpinu en hún var algjörlega með þetta. Ein á sviðinu í listasafninu að syngja og dansa yfir playback og algjörlega fyllti sviðið. Frábær sviðsframkoma og sterkur flutningur. og alveg rosalega flottir tónleikar

Júníus Meyvant

Næstur var Júníus Meyvant. Rosalega fallegt rautt, hár, vel spilandi þétt hljómsveit og allt vel gert. Því miður er suðurríkakántrtíið hans að gera voðalega lítið fyrir mig.

Amyl and the sniffers

Þá voru það hressu ástralarnir í Amyl and the sniffers og leikar fóru heldur að æsast. Skoppandi pyttur við sviðið og mikið gaman í gangi. Þau spila bara einfalt pöbbarökk eða gamaldags pönk og fóru á kostum. Gítarleikarinn var reyndar aðeins úr leik til að byrja með þar sem einhver hafði eitrað fyrir honum með rótsterkum skotum fyrir tónleikana sem heyrðist aðeins fyrst. Þetta var skemmtilegt en var alveg full lágt. Svona tónlist virkar best þegar það syngur í öllu hljóðkerfinu og salurinn í listasafninu hentar ekkert vel í að framleiða í hávaða. En konungleg skemmtun og henni Amy finnst greinilega ekkert leiðinlegt á sviði.

Múr

Nú voru komin þrjú bönd og þá var kominn tími á að fara á Gaukinn. Þar var Múr að spila og þar vantaði ekkert upp á hljóðið og hávaðann. Grjóthart öfgarokk sem hljómaði stórskemmtilega og kom suðinu sem vantaði sárlega í eyrun á listasafninu fyrir á sínum stað. Skemmtilegt band.

Crack Cloud

Þá lá leiðinn upp í Óperu, með stuttu stoppi á Húrra þar sem Supersport voru að spila. Þau voru bráðskemmtileg en í Óperunni var kanadíska hljómsveitin Crack Cloud að spila. Þau eru byggð upp í kringum trommarann og söngvarann sem var komið fyrir á miðju sviðinu á palli, sem minnti á landa þeirra í NoMeansNo sem lengi notuðu sömu uppsetningu. Þetta var samt ekki powertrio það varu átta manns á sviðinu með hörpu, saxófónleikara og ég veit ekki hvað. Þetta var allt mjög artý og hljómaði ágætt en var ekki endilega það sem fór vel í eyru eftir Múr svo það var kominnn tími á heimferð.

Föstudagur

Frances of Delerium

Kvöldið byrjaði í Óperunni þar sem Frances of Delerium var að spila. Þetta var næstum of alþjóðlegt. Bandið er gert út frá Lux. Söngkonan er tvítug kanadamær með ást á grunge. Trommarinn er jafn gamall mér, þrjátíu árum eldri og kemur frá Seattle. Þetta virkaði, var stórfínt og ég ætla að hlusta meira á þau og fylgjast með þessari söngkonu

Sucks to be you Nigel

„Flestar stelpur vilja bara drekka kók, bera á sig sólarvörn og hafa það gaman. En mig dreymir um að fá .. RAFLOST“ Sucks to be you Nigel eru skemmtileg. Og þau hafa alveg ótrúlega sjarmerandi söngkonu sem brýtur allar reglur og gerir allt gaman. Þau spila framhaldsskólapönk og eru í skemmtilegum noice rokk pælingum í átt að Sonic Youth, Jesus and Mary Chain og svo framvegis en það er bara svo ógeðslega gaman þegar Silja Rún söngkona fer hamförum, vona að þau finni leið til að sameina tilraunamennskuna og lætin áfram og haldi áfram að skrifa skrýtna fyndna texta.

Antti Paalanen

Hvaðan kom þetta? Finni með harmónikku að spila yfir eletróník og rymja eins og deathmetal söngvari. Kannski er þetta það sem gerist þegar finnsku deathmetal böndin komast út úr skóginum aftur? Þetta var í það minnsta bráðskemmtilegt og stórfenglegt að heyra salinn öskursyngja með á finnsku.

Marius DC

Hressir hipp hopp krakkar frá Færeyjum með sviðsframkomuna, lúkkið og F-orðið á hreinu. Þetta var alveg gaman, hefði örugglega verið enn meira gaman ef hann hefði rappað á færeysku.

Brimheim

Færeysk/Danska söngkonan Brimheim var í Iðnó á eftir honum Maríusi. Síðustu vikur hef ég talsvert hlustað á plötuna hennar „Cant hate myself into a different shape“ og hún var einfaldlega frábær. Rosa skemmtilegt gigg og hefði alveg mátt vera lengra. Hún spilaði líka ný lög sem boða fullt af góðri skemmtun.

Altin Gun

Ég var spenntur fyrir þessu. Tyrknesk söngkona og söngvari, traditional lúta og grúv, sungið á tyrknesku. Þetta hljómaði eins og uppskrift að góðu djammi. Því miður þá fann ég ekki grúvið, allir að vanda sig en náði ekki að renna. Amk ekki fyrir mér, bestu kaflarnir voru þegar lútan og hefðbunda tyrkneska raddbeitingin kom inn en þarna fannst mér vanta þetta óútskýrða X. og þá var bara eitt að gera

HAM

Við erum HAM!

Þú ert HAM!

Við erum öll HAM!

Þegar HAM skrýmslið dettur í gang þá er HAM besta band í heimi. Þetta voru góðir HAM tónleikar, þar með voru þetta bestu tónleikar í heimi.

Laugardagur

Bæði HAM og ég hafa elst saman og því vaknaði ég ekki með marblett formaðan eftir Doc Martens í stærð 50 á kálfanum eins og þegar ég datt í pyttinum á einhverjum af lokatónleikunum í Tunglinu á tíunda áratugnum, Núna var ég bara pínulítið sár í hálsinum en fötin mín lyktuðu eins og HAM tónleikar, blanda af svita mínum og annara. Núna var tími til að taka því rólega og því var haldið í Fríkirkjuna

Alysha Brilla

Kemur frá Kanada, kom fram með strák sem spilaði á bassa og trommur og indverskum söngvara/flautuleikara berum undir jakkanum með hrúgu af gullkeðjum um hálsinn. Hún var algjört krútt. var í skýjunum með að hafa fengið að spila á tónleikum á íslandi í afmælisgjöf og var alveg að fíla sig. Þetta var mjög skemmtilegt og kom á óvart. Ég hafði heyrt eitthvað aðeins í henni og bjóst ekki við miklu en hún reyndist algjört sjarmatröll og flautandi meðreiðarsveinninn var skemmtileg viðbót.

Árný Margrét

Árný Margrét er vaxandi tónlistarmaður. Hún var með þrusumenn með sér og var mjög svo hugguleg og gerði sitt mjög vel.

Arooj Aftab

Arooj Aftab var annað atriði sem ég vildi ekki missa af og stóðst allar væntingar og rúmlega það. Hún er fyrsti pakistaninn til að vinna Grammy verðlaun og kom fram með gítarleikara (Gyan Riley). Þetta var stórkostlegt, gæsahúð og allur pakkinn en alltof alltof stutt.

Þetta var frábær Airwaves hátíð. Takk fyrir mig. Af því sem ég sá stóðu Arooj Aftab, Brimheim og Amyl and the sniffers upp úr, ásamt finnska fjöldasöngnum en Gusgusar var það sem kom skemmtilegast á óvart.

Það var svolítið undarlegt að fá listamann eins og Arooj, nýbúna að fá Grammy verðlaun til landsins, og gefa henni bara 40 mínútur til að spila. Vonandi kemur hún aftur sem fyrst. En annars var allt skipulag, gæsla og utanumhald til fyrirmyndar.

Svo verður líka að gefa Gauknum og Húrra prik, það er alveg greinilegt að þar eru haldnir tónleikar reglulega og hljóðkerfin eru sniðin að húsunum og allt virkar og hljómar vel og það er hægt að vera með læti. Það er ekki að hljóðið hafi verið lélegt á nokkrum stað heldur en það var einfaldlega áberandi betra þar en í Listasafninu, Iðnó og Óperunni, já og mun hærra þegar það átti við. Í Fríkirkjunni var mun rólegri og lágstemmdari tónlist sem hentaði því rými fullkomlega. Ég er ekki viss um að HAM mundi virka þar inni en samt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s