Öryggi er tekið alvarlega hjá El Al. Mjög alvarlega. Check in er afgirt svæði á Schiphol þar sem Hollenskir herstrákar, gráir fyrir járnum ganga um og fólki er hleypt inn í hollum og tekið í létta yfirheyrslu.
„Hvað ætlar þú að gera í Ísrael?“
„Pakkaðir þú sjálfur í töskuna þína?“
„Hefur þú fylgst með töskunni þinni síðan þú pakkaðir niður?“
„Hefur þú verið beðinn fyrir gjöf til einhverra í Ísrael?“
„Þekkir þú einhverja í Ísrael? Hvað heita þau?“
Hann er kurteis, rennir hratt í gegnum spurningalistann en er með allt á hreinu, vel þjálfaður öfugt á við Hollendingana sem taka af manni vatn og sjampó í hliðinu en geta aldrei svarað af hverju.
Íslenska vegabréfið mitt vekur greinilega athygli ég er líka stoppaður við hliðið og látinn bíða eftir öðrum ísraelskum öryggisverði sem rennir aftur í gegnum sama spurningarlista.
Ég er búinn að koma mér fyrir í flugvélinni þegar öryggisvörður númer eitt birtist og fer að tala við konuna í sætinu fyrir framan mig.
„Er eitthvað rafmagnstæki í töskunni þinni sem gæti gefið frá sér hljóð?“
Konan hikar.
„Eitthvað sem gæti titrað?“ spyr hann rólegur, en horfir beint í andlitið á henni.
„Ég er með rafmagnstannbursta í töskunni, hann gæti hafa farið í gang.“ stynur hún á endanum upp.
„Í hvorri töskunni?“
„Þeirri rauðu.“
„Segjum það gott“ og svo er hann farinn aftur.
Flugið er áfallalaust, nema hvað mp3 spilarinn minn varð að steini. Ég sit og les The God Delution eftir Richard Dawkins, maðurinn í sætisröðinni við hliðina, hefur litla bænahúfu á höfðinu og er að lesa einhverjar trúarlegar bækur. Hann rennir hornauga á mig. Sem betur fer var Harry Potter uppseldur, honum hefði kannski líkað enn verr við hann.
Ég bý mér svo til meiri vandræði á Ben Gurion, ég á að vera fyrirfram samþykktur en bið eftirlitið að stimpla ekki vegabréfið mitt. Ég gæti þurft að fara aftur til Kuwait eða þá til Saudi og þar eru stimplar frá Ísrael ekki vinsælir. Þetta kallar á nokkrar léttar yfirheyrslur frá 4 landamæravörðum í röð.
„Hvað ertu að gera í Ísrael?“
„Fyrir hverja vinnur þú?“
„Hvar kemur þú til með að búa?“
„Þekkir þú einhverja í Ísrael, hvað heita þeir?“
Mér bregður mest þegar ég er spurður hver sé að bolnum mínum, “ Yukio Mishima, japanskur rithöfundur“ svara ég örlítið hissa. „Hvaða stjórnmálaskoðanir hefur hann?“ „Hann var Japanskur þjóðernissinni?“
Kurteisu en ákveðnu landamæraverðirnir rétta mér vegabréfið óstimplað og bjóða mig velkominn til Ísrael. Næst mæti ég í bol með mynd af Isaac Bashevis Singer.
P.s. Leigubílsjórinn snuðaði mig ekki !