Mánaðarsafn: mars 2006

Bækur

Í Rúmeníu: Blink eftir Malcom Gladwell og Never Let me go, Kazuo Ishiguro og loksins vilja krakkarnir að við lesum Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þau.

Er núna að lesa Watchmen varð að fara út og kaupa hana, Alan Moore vill víst láta fjarlægja nafn sitt af henni þar sem hann ræður ekki örlögum hennar lengur. 

Fann þessa fínu teiknisögubúð í Den Haag. Það er að segja teiknisögubúð sem selur aðrar enskar teiknisögur en Marvel. Auðvitað nær engin búð sömu hæðum og  Nexus sem hafa sent mér Fell og Seven Soldiers í pósti frá Íslandi síðustu mánuði. En þessi kemst nokkuð nálægt með algjöran teiknisögulúða sem innkaupastjóra, þeir ætla að taka frá Nextwave fyrir mig og ég á örugglega eftir að eyða alltof mörgum evrum þarna.

Heim frá Rúmeníu

Höll fólksinsÉg komst aftur til baka frá Bucharest. Jón fór um miðjan dag á fimmtudeginum og ég átti flug eldsnemma að morgni tuttugasta og fjórða.  Auðvitað var ég vinnandi fram á kvöld, en fékk þó 2 kls. ökuferð um borgina á meðan skyggði, sá Höll fólksins og smá brot af borginni áður en ég var keyrður aftur á hótelið að borða einmanna kvöldverð og fór snemma í rúmið. Næturlíf í Rúmeníu bíður betri tíma, enda ekki hægt að læra mikið um borg á innan við tveimur sólarhringum.
 
Ég vaknaði eldsnemma um morguninn og fór niður að finna leigubílinn sem átti að bíða eftir mér. Að aflokinni reikistefnu í andyrinu tilkynnti annar næturvörðurinn að hann ætlaði að keyra mig. Á leiðinni var útskýrt fyrir mér af hverju þeir hringdu ekki á leigubíl. Aðrir gestir höfðu kvöldið áður verið stungnir af á flugvellinum. Þeir höfðu farið inn á flugstöðina að taka út pening fyrir leigubílnum og bílstjórinn notað tækifærið og stungið af með töskurnar þeirra og veski. Þar sem þetta var ekki í fyrsta skipti þá höfðu þeir ákveðið að keyra mig sjálfir. Við keyrðum af stað í snjókomu á dimmum vegi sem liggur utan við Bucharest, hringinn í kringum borgina. Vegamerkingar voru mjög takmarkaðar, hér og þar mátti sjá móta fyrir miðlínu á veginum og engin lýsing fyrir utan týruna á bílnu. Einhverjir leigubílstjórar leika víst þann leik líka að bíllinn þeirra „bilar“ á þessari leið og „óþekktir“ ræningjar birtast skyndilega.

Veðrið var hundleiðinlegt en ég komst tímanlega á flugvöllinn. Þar var hægt að kaupa kaffi á einum bás en annars var allt lokað. Út um allt sat reykjandi fólk en ég gat þó fundið reyklítið horn og komið mér fyrir með bók.

Hundsgá um nótt

Jón segir að Bucharest minni á Kópavog. Síma og rafmagnssnúrur hlykkjast á milli húsa. Fyrir utan veitingarstaðin sem við fórum á á gær höfðu greinar verið sagaðar af trjánum við veginn og snúrurnar lagðar upp á stúfana sem stóðu út af stofninum.

Felst hús sem við keyrum framhjá eru afgirtir og görðunum lokað með hliði, komandi frá Hollandi þar sem húsin standa þétt við götuna og það eru engin gluggatjöld þá virka girðingarnar fráhrindandi.

Hótelið sem við gistum á er talsvert fyrir utan borgina. Það stendur á eiði eða eyju út í stöðuvatni sem eitt sinn var hluti af einni af þremur ám sem renna gegnum Bucharest. Rúmlega 250 ára kastali sem hefur verið breytt í hótel. Bæði kastalinn og hótelið komin til ára sinna, rúmin óslétt og hundsgá úr nálægum skógi hélt fyrir mér vöku. En staðsetningin var falleg og kastalinn gæti orðið það líka, eftir svona milljón evrur eða svo.

Ég spyr Octavian um hundana og hann segir mér að flækingshundar séu vandamál í Bucharest. Fólk vilji ekki að þeim sé útrýmt og sumir gangi svo langt að fæða ákveðna hunda til að halda þeim nálægt húsum sínum. En eftir að Japanskur túristi var bitinn til bana niðri í miðbæ nýlega þá hafi þetta breyst. Nú sé verið að útrýma hundunum og þeir sem komi þeim til varnar séu gerðir ábyrgir fyrir þeim. Ég sé samt ræfilslega og óhirta hunda hér á þar á meðan við skröltum í gegnum holurnar og þvottabrettin sem hér kallast götur.

Bucharest

Stutt og laggott.

Er nýlentur í 15 stiga hita í Rúmeníu og sit á skrifstofu að setja upp server.
Flýg heim strax á föstudagsmorgun. Vona að ég komist til að taka myndir.

Bucharest lítur vel út, kannski er það bara sólskinið.