Mánaðarsafn: nóvember 2005

Óveður í Holland

Það var víst óveður í Hollandi í gær.

Ég er í löngu helgarfrí og missti því að mestu umferðarteppu í sögu Hollands og er því feginn. Snjókoman náði ekki til Den Haag en hér var samt leiðinda slagvegður fram eftir kvöldi.

En það besta er að ég finn meiri upplýsingar um þetta á Morgunblaðinu en á Hollensku netmiðlunum. Þeir virðast hafa meiri áhuga á Breskum túrista sem var stunginn í rauða hverfinu í Amsterdam og því að veitingastaðurinn Oud-Sluis í þorpinu Sluis
skuli verða þriðji Hollenski veitingastaðurinn sem fær þrjár Michelin stjörnur. Enda er mun sjaldgæfara að fá góðan mat á veitingastað í Niðurlöndum en að sitja fastur í umferðarteppu.

Karateæfing

Það er farið að skyggja klukkan fimm og orðið aldimmt um klukkan sjö. Ég hjóla á vörubílshjólinu hennar Kristínar með Jökul Mána á karate æfingu upp í Scheveningen. Við fundum loksins karate þjálfara og fórum á æfingu númer tvö í kvöld. Fyrsta æfingin var erfið. Þar voru 20 krakkar af öllum stærðum og gerðum með allt frá hvíta til bláa beltisins en nú er búið að skipta hópnum meira eftir getu. Ég sit og hef annað augað á salnum en hitt á bókinni minni. Heima var foreldunum vísað út úr salnum en hér situr reytingur við norðurendann á meðan æfingu stendur.

Það er skítakuldi, rigning og leiðinda vindstrengur við höfnina. Við feðgarnir erum fegnir að komast inn í hlýjuna heima.

Heima

Það er gott að vera kominn heim.

Ég hlakka svo til

Ég er að fara heim eftir tvegga vikna vinnu í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Við erum búin að vera við opnun á stærstu IKEA búð miðausturlanda og skipta um kerfi í annari. Ég er búinn að fara þrjár ferðir á milli Dubai og Abu Dhabi og vera alls í fjóra daga og þrjár nætur þar og hina tíu dagana hef ég verið í Dubai.

Ég er hrifinn af báðum þessum borgum en þá sérstaklega Abu Dhabi. Dubai er skemmtileg í allri sinni geðveiki, það er eins og öllum heiminum hafi verið troðið þangað. Við sáum í einhverju blaðinu að 16% allra byggingarkrana heimsins séu staðsett í Dubai og miðað við útsýnið hérna þá er það sennilega rétt. Það er allt hérna, grænmetisbás á götuhorni og risa matvöruverslun á stærð við Smáralind. Brjáluð háhýsi og hreysi. Fólk sem fær 500 dirams í laun á mánuði fyrir 15 tíma vinnu 6 daga vikunnar og fólk sem græðir 500 dirams á sekúndu, líka á meðan það sefur.
Kannski skýrir það eitthvað af þessari geðveiki að Dubai ætlar sér að hafa 50% af „furstadæmaframleiðslu“ sinni frá verslunarrekstri um 2009.


Abu Dhabi er rólegri, vinalegri. Þar fæst víst ekki leyfi fyrir háýsum nema þau hafi einhver Arabísk einkenni sem gefur borginni smá heildarsvip og það sem ég hef séð af henni bæði hreint og fallegt. Svo Ég vildi svo gjarnan hafa haft tíma til að gerast túristi þar, skoða mig meira um og fara á ströndina. Kannski næst.

Opnunardagur

Það var ánægjulegt að sjá að þetta á sér ekki bara stað á Íslandi.

Grand Opening

Fullur kall.

Drukkinn miðaldra maður, í kufli með höfuðklút og fallega snyrt yfirvaraskegg rekst í öxlina á mér. Ropar hraustlega, sennilega er það afsökunarbeiðnin. Tekur sér stöðu fyrir framan mig, gleiðfættur með slagsíðu, hallast um 20 gráður til hægri. Stikar út stefnu og siglir ákveðnum en völtum skrefum yfir gólfið, dettur í sófann aftan við Rússnesku gleðikonurnar og situr þar um stund. Stendur óstöðugur á fætur og hlammar sér niður á milli þeirra. Samningaviðræðurnar ganga ekki vel, hann reynir bæði á hægri og vinstri hönd áður en hann slagar út af barnum. Þær Rússnesku panta bjór og halda áfram að horfa í kringum sig í leit að kúnnum.

Hugleiðing

Ef þú klæðist bara hvítum kuflum, hvernig veistu hverjir þeirra eru spari?

Ritskoðun

Michael Jackson
þetta minnir á gamalt Rockwell/Michael Jackson lag

Ofsaakstur

Á 160-180 kílómetra hraða á leiðinni frá Abu Dhabi til Dubai verða trén sem búið er að panta í þunnt belti meðfram veginum ennþá óraunverulegri. Plasttré í eyðimörkinni.

Það var bíll í Abu Dhabi sem ég hefði getað keyrt til baka, ef ég hefði haft ökuskýrteinið með mér. En mig langar ekki að lenda í móttökunni hjá lögreglunni í Furstadæmunum, auk þess sem aksturslagið hér er frekar brjálæðislegt. Við ætluðum að taka leigubíl en einn af IKEA strákunum bauðst til þess að keyra okkur. Við setjumst inn í bílinn hans, gamla Toyotu, grínumst við hann hvort hann keyri jafn skelfilega og leigubílstjórarnir, hann hlær og gefur í. Hann keyrir á 120-30 innan Abu Dhabi og á 160-80 þegar komið er út úr mestu umferðinni. Við sitjum stjarfir af hræðslu, en hann lagar sætið, hringir í kærustuna, sendir SMS án þess að slá af. Þegar mesta hræðslan fer að brá af mér þá spyr ég hann af hverju bíllinn hans pípi ekki þegar hann er kominn fyrir 120. Hann segir það vera vegna þess að bíllinn hans sé fluttur inn frá Ameríku. „Allir bílar sem eru seldir hér nýjir eru með píptæki. Gamli bíllinn minn var sípípandi, það var óþolandi“ segir hann og hlær. „Þetta er miklu betra“

Hann veit um allar myndavélarnar á leiðininni og hverjar eru plat og hverjar ekki. Akgreinarnar er aðgreindar með litlum misfellum svo bíllinn hristist og gefur frá sér hljóð þegar hann skiptir um akgrein, eða gleymir sér í einhverri sögunni svo bíllinn lekur að akgreinamótunum. „Einu sinni sofnaði ég undir stýri á leiðinni“ segir hann í eitt skiptið. „Vaknaði bara þegar ég heyrði whump whump í ójöfnunum.“ og svo fer hann að spyrja Ástralíufarann Remco hvort það sé satt að menn læsi stýrinu, setji á cruise control og sofi á Highway1 milli Perth og Sidney sem er sagður lengsti beini malbikaði vegur í heimi. Ég held fastar í handfangið á hurðinni

Við keyrum fram hjá bílhræi í vegarkantinum og förum að tala um slys; Ég segi honum frá slysinu sem við Saju keyrðum fram hjá á leiðinni til Abu Dhabi. Fimm bílar í vegarkantinum, einn á hvolfi með samanfallinn topp og stórt gat á framrúðunni, maður liggjandi í vegarkantinum framan við bílinn. Hann segir okkur að þetta gerist vegna þess að það séu alltaf einhverjir sem keyri of hægt á akgreininni lengst til vinstri. Hann hafi einu sinni lent í slysi fyrir utan Dubai, keyrandi á 100 mílna hraða, þegar bíllinn fyrir framan hann stoppaði allt í einu skyndilega. Hann rétt náði að stoppa, „svona langt frá bílnum“ segir hann og lyftir höndunum upp frá stýrinu með eitthvað um 20cm bil á milli þeirra. „En,“ heldur hann áfram „jeppinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur og keyrði aftan á mig. Allur bíllinn gekk saman. Gírkassinn féll niður, sætið gekk fram svo ég rak hnén í mælaborðið og skottið gekk inn í aftursætið. En þetta var ekki mér að kenna!“ Við höldum áfram á sama hraðanum. Ég er farinn að vona að hvað sem veldur því að „check engine“ ljósið í mælaborðinu logir fari að stoppa bílinn. Ljósunum er blikkað á bíla sem ekki víkja nógu hratt til hægri og ef það dugar ekki flautað. Aldrei stigið á bremsuna. Í eitthvert skiptið sem mér finnst bíllinn sem skyndilega er mér á hægri hönd vera full nálægt rísa hárin á höndunum á mér. „Er þér kalt? Við getum opnað hérna.“ og svo teygir hann sig upp og fer að opna topplúguna.

Sem betur fer erum við bara rétt rúma klukkustund að fara þessa 125 kílómetra. Við Remco erum svolítið óstöðugir á fótunum þegar við löbbum inn á hótelið, næst ætlum við að labba.

Kvöldstemming í Abu Dhabi

Leigubílabiðröðin fyrir utan Marina Mall rennur rólega áfram. Flissandi unglingsstúlkur í svörtum mussum með höfuðklút (hijab) standa fyrir aftan okkur Remco, Diesel skór og gallabuxur undir svörtum kuflum, ein þeirra með Niqab, allt andlitið nema augun hulin. 6 manna fjölskyldan á undan okkur treður sér inn í Toyota. Unglingsstrákur í framsætið, faðir og móðir aftur í með tvær litlar stelpur í fanginu og þriðja barnið við hliðina á sér. Leigubílstjórinn gefur harkalega í, þau þjóta burtu og röðin kemur að okkur.

Leigubíllinn keyrir með okkur meðfram stöndinni. Báðu megin við veginn er fólk á gangi, hópar af fólki sitja í grasinu með Sheesha á milli sín. Aðrir sitja að tafli og á nokkrum stöðum má sjá neistaflug frá litlum eldum þar sem fólk er að grilla.

Við Howard Johnsson hótelið eru hlutirnir ekki svona vinalegir. Bílstjórinn talar eitthvað um „chinese“ þegar við stígum út úr bílnum, við erum fljótir að skilja hann. Í anddyrinu er löng biðröð eftir lyftu og í biðröðinni synda um austurlenskar stúlkur sem bjóða upp á „nudd“.

Ég geng frá dótinu mínu og sigli í lyftunni niður á aðra hæð þar sem eiga að vera veitingastaðir og barir. Allir staðirnir eru pínulitlar holur fullir af hvítum kuflum og reykmettaðir, ég er fljótur að flýja þaðan. Enski barinn „The Cellar“ er utan við hótelið. Ég sest niður með bjór, á pínulitlu sviði standa þrjár stelpur með bassa og hljómborð og spila Shakira, söngkonan er ágætis dansari en mun síðri söngkona.

Á 17. hæðinni reynast vera heilir þrír skemmtistaðir. Á einum þeirra standa þrjár konur upp á sviði og syngja á arabísku, enginn bar. Hinir tveir staðirnir reynast fullir af fólki frá Filipseyjum. Annar er með live tónlist meiri Shakira, í þetta skipti getur stúlkan sungið en vinkonur hennar tvær á bakröddunum hrista aðeins haddinn í takt við tónlistina. Þegar byrjað er á Bon Jovi lagi, með salsatakti, stígur þéttvaxinn strákur fram og söngkonan stígur aftur og tekur þátt í „dansinum“. Diskótekið er pakkað, dansgólfið er pínulítið og hátalarinn fyrir ofan hausinn á mér er rifinn. Minnir mest á Bíóbarskjallarann, nema hvað fólkið er ekki í jafn annarlegu ástandi og dansar minna. Flest allir gestarnir virðast vera frá Filipseyjum, nema nokkrir arabískir strákar sem kunna öll hiphop danssporin. Ég ákveð að flýja niður á hótelherbergið og fara að sofa, hefði betur farið í göngutúr meðfram ströndinni.