Mánaðarsafn: nóvember 2005

Óveður í Holland

Það var víst óveður í Hollandi í gær.

Ég er í löngu helgarfrí og missti því að mestu umferðarteppu í sögu Hollands og er því feginn. Snjókoman náði ekki til Den Haag en hér var samt leiðinda slagvegður fram eftir kvöldi.

En það besta er að ég finn meiri upplýsingar um þetta á Morgunblaðinu en á Hollensku netmiðlunum. Þeir virðast hafa meiri áhuga á Breskum túrista sem var stunginn í rauða hverfinu í Amsterdam og því að veitingastaðurinn Oud-Sluis í þorpinu Sluis
skuli verða þriðji Hollenski veitingastaðurinn sem fær þrjár Michelin stjörnur. Enda er mun sjaldgæfara að fá góðan mat á veitingastað í Niðurlöndum en að sitja fastur í umferðarteppu.

Karateæfing

Það er farið að skyggja klukkan fimm og orðið aldimmt um klukkan sjö. Ég hjóla á vörubílshjólinu hennar Kristínar með Jökul Mána á karate æfingu upp í Scheveningen. Við fundum loksins karate þjálfara og fórum á æfingu númer tvö í kvöld. Fyrsta æfingin var erfið. Þar voru 20 krakkar af öllum stærðum og gerðum með allt frá hvíta til bláa beltisins en nú er búið að skipta hópnum meira eftir getu. Ég sit og hef annað augað á salnum en hitt á bókinni minni. Heima var foreldunum vísað út úr salnum en hér situr reytingur við norðurendann á meðan æfingu stendur.

Það er skítakuldi, rigning og leiðinda vindstrengur við höfnina. Við feðgarnir erum fegnir að komast inn í hlýjuna heima.

Heima

Það er gott að vera kominn heim.

Ég hlakka svo til

Ég er að fara heim eftir tvegga vikna vinnu í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Við erum búin að vera við opnun á stærstu IKEA búð miðausturlanda og skipta um kerfi í annari. Ég er búinn að fara þrjár ferðir á milli Dubai og Abu Dhabi og vera alls í fjóra daga og þrjár nætur þar og hina tíu dagana hef ég verið í Dubai.

Ég er hrifinn af báðum þessum borgum en þá sérstaklega Abu Dhabi. Dubai er skemmtileg í allri sinni geðveiki, það er eins og öllum heiminum hafi verið troðið þangað. Við sáum í einhverju blaðinu að 16% allra byggingarkrana heimsins séu staðsett í Dubai og miðað við útsýnið hérna þá er það sennilega rétt. Það er allt hérna, grænmetisbás á götuhorni og risa matvöruverslun á stærð við Smáralind. Brjáluð háhýsi og hreysi. Fólk sem fær 500 dirams í laun á mánuði fyrir 15 tíma vinnu 6 daga vikunnar og fólk sem græðir 500 dirams á sekúndu, líka á meðan það sefur.
Kannski skýrir það eitthvað af þessari geðveiki að Dubai ætlar sér að hafa 50% af „furstadæmaframleiðslu“ sinni frá verslunarrekstri um 2009.


Abu Dhabi er rólegri, vinalegri. Þar fæst víst ekki leyfi fyrir háýsum nema þau hafi einhver Arabísk einkenni sem gefur borginni smá heildarsvip og það sem ég hef séð af henni bæði hreint og fallegt. Svo Ég vildi svo gjarnan hafa haft tíma til að gerast túristi þar, skoða mig meira um og fara á ströndina. Kannski næst.

Opnunardagur

Það var ánægjulegt að sjá að þetta á sér ekki bara stað á Íslandi.

Grand Opening

Fullur kall.

Drukkinn miðaldra maður, í kufli með höfuðklút og fallega snyrt yfirvaraskegg rekst í öxlina á mér. Ropar hraustlega, sennilega er það afsökunarbeiðnin. Tekur sér stöðu fyrir framan mig, gleiðfættur með slagsíðu, hallast um 20 gráður til hægri. Stikar út stefnu og siglir ákveðnum en völtum skrefum yfir gólfið, dettur í sófann aftan við Rússnesku gleðikonurnar og situr þar um stund. Stendur óstöðugur á fætur og hlammar sér niður á milli þeirra. Samningaviðræðurnar ganga ekki vel, hann reynir bæði á hægri og vinstri hönd áður en hann slagar út af barnum. Þær Rússnesku panta bjór og halda áfram að horfa í kringum sig í leit að kúnnum.

Hugleiðing

Ef þú klæðist bara hvítum kuflum, hvernig veistu hverjir þeirra eru spari?