Down the highway

Sneek, Joure, Heerenveen, Zwolle, Ermelo, Amersfoort, Utrecht, Waddinxveen, Rijsweik, Den Haag. Kannski það sé skynsamleg ástæða fyrir því að það séu ekki sungin lög um Hollenska þjóðvegi. Bob Dylan passaði samt ágætlega

Well, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Yes, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Lord, I really miss my baby,
She’s in some far-off land.

Ég fór löngu leiðina heim frá Sneek. Við vorum í afmælisfagnaði sem fór fram við Sneekermeer, lítið vatn rétt utan við bæinn. Deginum var varið í ró og næði á vatnsbakkanum þar sem Fríslendingar fjölmenntu. Það var heitt og fallegt veður og vatnið var volgt svo við Ilse gátum synt yfir vatnið.

Kvöldið áður enduðum við Guðlaug úti á lífinu í Sneek, sem reyndist vera merkileg lífsreynsla. Einn barinn var fullur af körlum sem stóðu í pörum og skiptust á að tala við konurnar sem komu inn. Sennilega búnir að stúdera alt.seduction.fast til hins ítrasta. Sá næsti var merkilegur fyrir sakir „veggs hinna vongóðu“ sem var bekkur við vegg barsins sem fólk prílaði upp á til að skaka sig á og á síðasta pöbbnum var nokkurs konar Andre Hazes kareooke. Já ég mæli eindregið með skemmtanalífinu í Sneek.

Ég er einn í Hollandi og þarf að finna mér eitthvað til að hafa fyrir stafni um helgar. Þessi helgi var afmæli og næturlífið í Sneek. Næturlíf síðustu helgar var í Brussel. Mágkona mín elskuleg var þar á frönskunámskeiði og ég fékk að gista hjá henni og vinkonu hennar í næstu götu við fæðingarstað Jacques Brel. Við fórum á markað, héngum á la Grand Place, skoðuðum jafnréttisstefnu í verki og ég skemmti mér konunglega. Ég held að ég haldi áfram í Belgíu á næstunni bæði Bruges og Ghent eru í næsta nágrenni og síðustu helgi hófst Gentse Feesten í Ghent sem á að vera risa götuhátíð í einni af fallegustu borgum Evrópu.

Jökull Máni á afmæli

Stóri strákurinn minn hann Jökull Máni á átta ára afmæli í dag. Mér finnst svo skelfing stutt síðan að ég labbaði ringlaður út af kvennadeildinni eftir að hafa haldið á honum í fyrsta sinn. Mér finnst líka sérlega leiðinlegt að geta ekki, annað árið í röð, verið með honum á afmælisdeginum. Hann var kátur með daginn svo ég er það líka.

Hlutir sem er gott að vita á línuskautum

Það er auðveldara að fara niður brekku en upp.
Brot í malbiki eftir trárætur eru tilvalin til að stoppa skauta.
Það er mun mýkra að detta á gras en malbik.

Aftur í Bucharest

Leigubílar í Austur Evrópu hlýða eigin efnahag, þar gildir hraðverðbólga. Ég er búinn að vera rukkaður um allt frá einu til sjö lei fyrir kílómeterinn. Sá sem ætlaði að rukka mig um 7 skipti reyndar um skoðun eftir að ég opnaði hurðina og ætlaði að fara út úr bílnum en skammaðist svo út í mig á Rúmönsku alla leiðina. Ég svaraði líku líkt á Íslensku og við vorum perluvinir þegar komið var á hótelið. Svo hjálpar það ekki til að Rúmenar eru í miðjum klíðum að skipta um gjaldeyri og skera fjögur núll af. Svo fyrir 20 lei leigubílaferð borga ég með 50 lei seðli og fæ 300.000 til baka.

Ég gat ekki stillt mig í kvöld og tók leigubíl niður á Piata Constitutiei að sjá aftur eitt af stærstu og ljótustu húsum í heimi. Labbaði í skugga þess niður Bulevardul Unirii á Piata Unirii, horfandi á fólk á stefnumótum undir hnetutrjám, tóma gosbrunna, flækingshunda í húsasundum og betlandi sígauna. Umferðarþvælurnar á hringtorgunum eru enn skelfilegri á fæti en í einum af bílunum sem troðast fram og aftur en ég slapp lifandi. Því miður er Kristín með myndavélina en hér eru myndir af leiðinni í boði einhvers annars.

Hættur á reiðhjóli

Það er hættulegt að hjóla í Hollandi.

Ekki út af umferðinni, allir gefa hjólum forgang.
Það lærist fljótlega þegar þú færð hjólafólk berjandi í bílinn hjá þér ef þú óvart stoppar á hjólastíg.
Eða þegar hjólað er á þig þegar þú gengur yfir hjólastíg.
Þess þá heldur þegar þú næstum keyrir niður kjarnafjölskylduföðurinn, með barnið í stól á stýrinu og eiginkonuna á bögglaberanum með hundana í ól, hjólandi gegn umferðinni inn á einstefnugötu á rauðu ljósi.

En þolinmæðinni eru takmörk sett…

Síðustu helgi var ég sektaður í Scheveningen fyrir að hjóla á breiðgötunni, gott og blessað. Löggan var mjög kurteis, benti mér á að ég gæti mótmælt sektinni eftir að ég fengi hana senda heim og sektaði mig ekki fyrir að vera skilríkjalausan.

En svo er ég með fallegan hnefamyndaðan marblett á upphandleggnum eftir að glaður skokkari kýldi mig niður af hjólinu á malarstíg við ströndina. Ég held að hann hafi verið að setja mér að það mætti ekki hjóla á þessum stíg.

Jabberwocky

Hollenska fjármálaráðuneyið.

Ég sit á brotinni masonítplötu á gólfinu í kjallaranum drekkandi bjór. Í kjallaranum er skólasýning listaskólanema í den Haag og ekkert annað. Á móti mér situr stúlka sem flytur mér Jabberwocky á Pólsku.

Brzdęśniało już; ślimonne prztowie
Wyrło i warło się w gulbieży;
Zmimszałe ćwiły borogowie
I rcie grdypały z mrzerzy…

Hún lofar að þrjár pólskar vinkonur sínar sem hún kenndi Jabberwocky fyrir verkið sitt muni koma til den Haag á miðnætti með sinn líterinn af pólskum vodka hver.

Ég er þreyttur, nýbúinn að bera búslóðina okkar út í gám og senda hann burt, jafnvel þessar fréttir ná ekki að kæta mig til miðnættis.

Navision og Höfuðverkur

Ég fékk símtal frá kúnna áðan.

„Það var eitt sinn svo að það eina sem gaf mér höfuðverk voru konur. Núna hefur Navision bætt við og er heldur verra.“

Ég er orðinn sammála honum.

Gleðilegt Sumar

Fjórar frænnkur hafa háttÞað var líf og fjör um páskana. Tengdaforeldrar mínir og þrjár mágkonur voru í hjá okkur í mat á laugardagskvöldinu fyrir páska og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá var gaman. Ég held samt að Salka muni læra á þetta með tíð og tíma. 

Í tilefni af afmælinu mínu og brúðkaupsafmæli þá fórum við út í gær að borða á persneskum veitingastað í Den Haag. Sumt var gott, annað vont. Höfum farið á betri staði. Þjónustan var mjög góð, eigandinn gekk alveg upp í því að kynna fyrir okkur hvern og einn einasta rétt en krakkarnir slysuðust til að brjóta vatnskaröflu sem við vorum samviskusamlega rukkuð um. Förum ekki aftur þangað en tilraunin var alveg þess virði.

Viðburðarík helgi

Lf  LopapeysuÞessa helgina var mikið um að vera. Líf varð sex ára á föstudaginn og við héldum afmælisveislu. Þar var margt um manninn og mjög gaman. Einn af gestunum var hann Ko sem er dúkka sem bekkurinn hennar Lífar skiptist á um að fara með heim. Ko finnst gaman í afmælum svo honum var boðið til okkar í helgarheimsókn. hann kom með ferðatöskuna sína og föt til skiptana og sérstaka bók þar sem æfintýri hans eru skráð. Ko fór með okkur á vormarkað á Weimarstraat á laugardeginum þar sem við borðuðum lumpia, keyrðum í klessubílum, keyptum vasa og skoðuðum mannlífið í den Haag. Hann fór líka í þriggja ára afmælið hennar Bríetar á sunnudeginum.
Karatamót
Á sunnudagsmorguninn tók Jökull Máni þátt í góðgerðarkaratemóti í Rotterdam. Við vöknuðum því fyrir allar aldir keyrðum Líf og Ko til Olgu og Munda og fórum rólega til Rotterdam, það eru nefnilega tvenn hraðamyndavélasvæði á leiðinni. Mótið gekk ágætlega, það var mikill spenningur og eftir því stórt spennufall. Heima er þessum gríslingum ekki leyft að taka þátt í mótum og því þótti þetta sérlega spennandi. Sum börnin sem við sáum þarna voru kannski full áköf í keppnisskapinu og eitthvað var um tár í augum. En allt var þetta undir ströngu eftirliti og vel að öllu staðið. 

Það verður ekkert rólegra á næstunni, ég fer á Morrissay tónleika í kvöld, við Kristín eigum miða á Rómeó og Júlíu í Lucent Danstheater í uppfærslu Pétursborgar ballettsins á miðvikudaginn. Síðan hefjast gestakomur fyrir alvöru, mér skilst að Marta svarta komi á morgun og um páskana verða Arndís og Hrafn, Guðlaug og Hrafn Geir hjá okkur í Den Haag.  

Ég hlóð nokkrum myndum til viðbótar upp á Flickr og skal reyna að vera duglegri við það

Námskeið og ritvinnsla

Ég sit í Utrecht á námskeiði í Sharepoint sem er ágætlega gaman, jafnvel þó að námskeiðið fari fram á Hollensku og ég skilji ósköp lítið sem stendur. En ég fæ úrdrætti á ensku við og við og mig vantaði aðallega tíma til að læra á þetta verkfæri. 

En aðal ástæða fyrir að ég nenni að segja frá þessu er að ég nota vefritil til að taka glósur á námskeiðinu. Einfalt og þægilegt. ZohoWriter virkar eins og ritvinnsla á vefnum. Það er hægt að skrifa skjöl og vista og þau bíða eftir þér á vefsíðunni þegar þú kemur inn næst. Öfugt við writely er hægt að skrá sig og byrja strax. 

Og svo er hægt að prenta, vista sem Word eða PDF beint út af vefsíðunni. Svona líka ljómandi fínt.