Gáta

Hvað er það fyrsta sem tölvudeildin gerir eftir 5 klukkustunda rafmangsleysi?

Fer í kapphlaup að kaffivélinni.

Tyrkneskar byggingar

Á lóðinni við hliðina er verið að byggja stóra verslunarmiðstöð og á girðingunni hanga skilti sem bjóða tilvonandi viðskiptavini velkomna. Ég rek augun í að það er engin mynd af tilvonandi verslunarmiðstöð og spyr Orlando hvernig standi á þessu. Það stendur ekki á svari. „Það er ekki hægt. Það eru Tyrkir að byggja þetta og þar með er ómögulegt að vita hvernig niðurstaðan verður“

Vambar, kepps og lakasúpa

Síðan ég kom fyrst í austurblokkina hefur það verið á stefnuskránni að smakka vambar, kepps og lakasúpu (tripe) sem er soðin úr kýrmaga. Lokins tókst mér að efna þetta, ég fékk þetta dýrindi á kaffihúsi í verslunarmiðstöð í Búkarest. Bragaðist bara ágætlega þakka þér fyrir.

Ökuferð um Rúmeníu


Ég er í Rúmeníu, í þriðja sinn á þessu ári sem segir allt sem segja þarf hvað þessi ferðaloggur minn er lítið uppfærður. En ferðirnar hafa líka verið allt frá 23. kls til núverandi ferðar sem varir í rúmar tvær vikur. Rúmenía minnir mig stundum á Ísland, hér gerast hlutirnir daginn fyrir opnun og Rúmenarnir hafa afskaplega svartan húmor, Hér er hringt í kerfisstjóran eftir miðnætti og honum sagt að gagnagrunnurinn sé hruninn bara til að athuga hvernig hann bregst við.

Á sunnudaginn var ég í fríi og nennti ekki að fjúga heim til Hollands þar sem ég þurfti að koma hingað aftur svo ég leigði mér bílaleigubíl og fór til Transilvaníu sem er óendanlega fallegur staður. Ég tók fullt af myndum út um gluggann og set ferðasöguna inn fljótlega.

Tónlist, Tónlist, Tónlist

Wolfgangs Vault er samansafn af mynjagripum um tónlist frá litlum San Francisco klúbbi sem nefndist Wolfgang’s. Það merkilegasta á síðunni er risasafn af tónleikaupptökum allra handa listamanna og það er stöðugt verið að bæta við. Hægt er að hlusta á upptökurnar í straumi frá síðunni og jafnvel kaupa sumar þeirra.

Heimferð og tónleikar

Dagurinn er alveg að verða búinn. Ég fer að koma mér heim að pakka jólagjöfum, pakka í ferðatösku og hafa mig til. Flýg rétt eftir hádegi á morgun og verð heima í þrjár vikur.
Ég hlakka svo til.

Á eftir er ég líka að fara með Vigni á Sonic Youth tónleika í Den Haag. Sem er frábært, ég flutti til Hollands tveimur dögum fyrir Sonic Youth tónleikana sem voru haldnir heima og næ þeim loksins núna. Hvað með það þó ég verði fram á nótt að pakka.
Um daginn fór ég á tónleika í Amsterdam með Danielson og Jeffrey Lewis Band Danielson hafði ég hlustað á og þeir stóðu sig með prýði en Jeffrey Lewis band stal kvöldinu sérstaklega með stórfenglegum heimagerðum heimildarmyndum.

Var ég búinn að segja að ég kem heim á morgun?

rúmlega 200000 sekúndur

þangað til ég kem heim.

Framlengdur í Singapore

Sunnudagskvöld í Singapore.
Niels þurfti að fara heim, er í loftinu núna. Ég verð sennilega hér einn dag í viðbót, hótelið er yfirbókað fyrir morgundaginn samt svo ég veit ekki hvað ég gisti næstu nótt. Það er amk bannað að sofa á lestarstöðinni en þétta kemur allt í ljós á morgun.

Dagurinn fór í verslunarráp fram og aftur um Orchard road. Þar er jólalegt, ég var næstum kominn í jólaskap af öllum ljósunum en lyftujólalögin í lyftunni á hótelinu redduðu þessu aftur. Mikið jólafólk hér í Singapore. Svo er þessi borg alveg ótrúlega snyrtileg. Ég þarf að biðja um leiðsögumann til að finna gott fiskihausakarrý og skítugar götur áður en ég fer.

Hápunktar dvalarinnar hafa verið Kínahverfið. Lukcys Plaza á Orchard road sem er eins og kínahverfið bara á 7 hæðum og svo Litla Indland sem á sunnudögum fyllist af Indverjum sem ráfa þar um göturnar á frídegi sínum. Það var samt mun snyrtilegra en Indverska hverfið í Dubai.

Lágpunkturinn er náttúrlega að hafa misst af John Zorn og Mike Patton í Brussel, og ég veit ekki hvort ég verð hress og kátur eftir 7 kls tímamun til að fara á Danielson tónleika á miðvikudaginn. Sjáum til, sjáum til.

Singapore

Ég þarf að fá mér einkaritara.

Í gærmorgun mætti ég í vinnuna, kveikti á tölvunni og loggaði mig inn. Svo horfði ég á dagatalið. „28. á ekki að vera í dag, ég á flug til Singapore þann tuttugasta og áttunda og það er á morgun, nei það er í dag, eftir tvo og hálfan tíma…“

PANIC!

Sem betur fer vinn ég með snillingum. Jeroen keyrði mig niður til Den Haag þar sem ég henti í flýti niður í ferðatösku og svo keyrðum við í loftköstum á Schiphol. Þegar ég kom inn var hálftími í brottför og skiltin sögðu skýrt og greinilega „boarding“. Ég kom hlaupandi að check in borðinu sem tvær konur voru að labba frá. Ég þurfti að grátbiðja þær að hleypa mér um borð, þær handskrifuðu brottfararspjald sem ég tróðst með gegnum röðina í vegabréfseftirlitið.

Singapore Airlines flýgur frá E19, það er langt frá brottfararsal þrjú. Ég hljóp alla leiðina með ferðatöskuna á eftir mér og kom að hliðinu 15 min fyrir brottför.

Jólamarkaður

Það er 17 stiga hiti og þoka. Reytt jólatré með blikkandi ljósaperum stendur við aðalinnganginn og bak við tréð standa nokkrir skúrar. Við borðum pylsusamlokur og drekkum jólaglögg, undir glymur tyrkneskt popp. Í einu jólahúsinu situr stelpa sem leggur kapal á tölvu sem tengd er við risa skjá. Fólkið sem labbar framhjá hefur ekki mikinn áhuga á jólavörunum, kannski ekki við því að búast í landi þar sem 99.8% íbúana eru múslimar.