Flokkaskipt greinasafn: Uncategorized

rúmlega 200000 sekúndur

þangað til ég kem heim.

Framlengdur í Singapore

Sunnudagskvöld í Singapore.
Niels þurfti að fara heim, er í loftinu núna. Ég verð sennilega hér einn dag í viðbót, hótelið er yfirbókað fyrir morgundaginn samt svo ég veit ekki hvað ég gisti næstu nótt. Það er amk bannað að sofa á lestarstöðinni en þétta kemur allt í ljós á morgun.

Dagurinn fór í verslunarráp fram og aftur um Orchard road. Þar er jólalegt, ég var næstum kominn í jólaskap af öllum ljósunum en lyftujólalögin í lyftunni á hótelinu redduðu þessu aftur. Mikið jólafólk hér í Singapore. Svo er þessi borg alveg ótrúlega snyrtileg. Ég þarf að biðja um leiðsögumann til að finna gott fiskihausakarrý og skítugar götur áður en ég fer.

Hápunktar dvalarinnar hafa verið Kínahverfið. Lukcys Plaza á Orchard road sem er eins og kínahverfið bara á 7 hæðum og svo Litla Indland sem á sunnudögum fyllist af Indverjum sem ráfa þar um göturnar á frídegi sínum. Það var samt mun snyrtilegra en Indverska hverfið í Dubai.

Lágpunkturinn er náttúrlega að hafa misst af John Zorn og Mike Patton í Brussel, og ég veit ekki hvort ég verð hress og kátur eftir 7 kls tímamun til að fara á Danielson tónleika á miðvikudaginn. Sjáum til, sjáum til.

Singapore

Ég þarf að fá mér einkaritara.

Í gærmorgun mætti ég í vinnuna, kveikti á tölvunni og loggaði mig inn. Svo horfði ég á dagatalið. „28. á ekki að vera í dag, ég á flug til Singapore þann tuttugasta og áttunda og það er á morgun, nei það er í dag, eftir tvo og hálfan tíma…“

PANIC!

Sem betur fer vinn ég með snillingum. Jeroen keyrði mig niður til Den Haag þar sem ég henti í flýti niður í ferðatösku og svo keyrðum við í loftköstum á Schiphol. Þegar ég kom inn var hálftími í brottför og skiltin sögðu skýrt og greinilega „boarding“. Ég kom hlaupandi að check in borðinu sem tvær konur voru að labba frá. Ég þurfti að grátbiðja þær að hleypa mér um borð, þær handskrifuðu brottfararspjald sem ég tróðst með gegnum röðina í vegabréfseftirlitið.

Singapore Airlines flýgur frá E19, það er langt frá brottfararsal þrjú. Ég hljóp alla leiðina með ferðatöskuna á eftir mér og kom að hliðinu 15 min fyrir brottför.

Jólamarkaður

Það er 17 stiga hiti og þoka. Reytt jólatré með blikkandi ljósaperum stendur við aðalinnganginn og bak við tréð standa nokkrir skúrar. Við borðum pylsusamlokur og drekkum jólaglögg, undir glymur tyrkneskt popp. Í einu jólahúsinu situr stelpa sem leggur kapal á tölvu sem tengd er við risa skjá. Fólkið sem labbar framhjá hefur ekki mikinn áhuga á jólavörunum, kannski ekki við því að búast í landi þar sem 99.8% íbúana eru múslimar.

I am in Turkey on thanksgiving

og enn með lélegan húmor.

Tyrkneskt lyklaborð

:ağ er iotriulega mıkığ mial ağ vielrıta meğ tyrknesku lyklaborğıç
Það er ótrúlega mikið mál að vélrita með tyrknesku lyklaborði.

Istanbul

Ég kom seint í gærkvöldi til Istanbul. Fyrir framan mig í flugvélinni sátu bræður, sennilega tvíburar sem minntu óþægilega mikið á gamminn úr köngulóarmanninum. Þeir voru samt ekki klæddir í græna vængjabúninga og öryggisverðirnir á flugvellinum sáu til þess að þeir voru örugglega ekki með neinn vökva með sér svo ég var rólegur.

Það eru fastir liðir þegar ég kem á nýjan stað. Annað hvort veit leigubílstjórinn ekki hvar hótelið mitt er eða hann reynir að svindla á mér. Bílinn rak á milli vegakanta á meðan bílstjórinn talaði í símann sinn að reyna að grafa upp staðsetninguna á hótelinu. Þegar símtalinu lauk keyrði hann á miðjulínunni að leigubílstjóra sið. Við og við potaði hann í mig að benda mér á moskvur, kirkjur, Bosphorus brúnna og aðra staði sem honum þóttu merkilegir. Ég var að verða viss um að hann væri bæði bæði villtur og að svindla á mér þegar við komum á hótelið.

Því miður flýg ég aftur burt á morgun og verð að vinna fram á nótt svo ég fæ lítið sem ekkert að sjá af borginni, það verður að gerast síðar. Ég er í það minnsta kosti búinn að keyra milli Evrópu og Asíu.