Flokkaskipt greinasafn: Uncategorized

Tyrkneskt lyklaborð

:ağ er iotriulega mıkığ mial ağ vielrıta meğ tyrknesku lyklaborğıç
Það er ótrúlega mikið mál að vélrita með tyrknesku lyklaborði.

Istanbul

Ég kom seint í gærkvöldi til Istanbul. Fyrir framan mig í flugvélinni sátu bræður, sennilega tvíburar sem minntu óþægilega mikið á gamminn úr köngulóarmanninum. Þeir voru samt ekki klæddir í græna vængjabúninga og öryggisverðirnir á flugvellinum sáu til þess að þeir voru örugglega ekki með neinn vökva með sér svo ég var rólegur.

Það eru fastir liðir þegar ég kem á nýjan stað. Annað hvort veit leigubílstjórinn ekki hvar hótelið mitt er eða hann reynir að svindla á mér. Bílinn rak á milli vegakanta á meðan bílstjórinn talaði í símann sinn að reyna að grafa upp staðsetninguna á hótelinu. Þegar símtalinu lauk keyrði hann á miðjulínunni að leigubílstjóra sið. Við og við potaði hann í mig að benda mér á moskvur, kirkjur, Bosphorus brúnna og aðra staði sem honum þóttu merkilegir. Ég var að verða viss um að hann væri bæði bæði villtur og að svindla á mér þegar við komum á hótelið.

Því miður flýg ég aftur burt á morgun og verð að vinna fram á nótt svo ég fæ lítið sem ekkert að sjá af borginni, það verður að gerast síðar. Ég er í það minnsta kosti búinn að keyra milli Evrópu og Asíu.

Líbanskur veitingastaður, Kuwait

Mér er boðið út að borða á Líbönskum veitingastað, það er verið að kveðja hollenska fjölskyldu sem er að fara heim. Maturinn er unaðslegur. Ég sit og reyki shisha og tala við Hollendinga með heimþrá. Þau segja mér frá Kuwait, hvernig sé að vera með börn í borginni, veitingastöðum, hvaða souq eigi að heimsækja, undir borðinu er vodki í plastbrúsa sem laumað er úr út í myntu/límónudrykkinn minn. Mér er sagt hvernig gera má bjór með því að bæta geri og sykri í pilsner, ef það er eitthvað sem fólk getur lært á dvölinni í Kuwait þá er það heimabrugg.

Verkfræðingurinn teiknar kort af Hollandi til að sýna mér hvar hann hafi verið alinn upp og hvar fallegt sé að heimsækja. Hann segir mér líka söguna af því þegar hann drakk Amerískt vodka í boði Rússneska sendiherrans og vaknaði upp úti í garði snemma morguns. Garðyrkumaður ákvað að bjarga honum áður en morgunbænirnar byrjuðu í moskunni sem hann sá skína í yfir tærnar á sér, eigandi garðsins hefur ekki boðið honum í veislu síðan. Ég fæ líka að heyra um tjaldferðir í Saudi, hvernig komast eigi fram fyrir biðraðir í Kuwait, og bifreiðar í gámum og hollensk tollalög.

Svo syngja arbarnir í hópnum fyrir okkur lag um löngu leiðina heim við undirleik Indverks lútuleikara. Eini Kúveitinn? á staðnum er löngu farinn heim en við sem eftir sitjum eigum öll langt heim að sækja.

Kindur á veginum

Rollur á veginum
Ég fékk heimþrá, langar heim að smala!

Enn í Kuwait

Ég var framlengdur í Kuwait. Flýg heim aðfararnótt laugardags. Í augnablikinu er skítkalt, ég sit hálfloppinn við hliðina á server herbergi með ofvirkri loftkælingu, ég hefði betur tekið með mér yfirhöfn.

Bílstjórinn minn

Ég er með einkabílstjóra sem sækir mig á hótelið á morgnana og skilar mér heim á kvöldinn. Miðaldra Egypti sem labbar ekki heldur strunsar og sveiflar höndunum kröftuglega á meðan. Talsmátinn er alveg eins og göngulagið, hann talar í snöggum rykkum fullviss á sínu. Í morgun vorum við rúmar 40 min frá hótelinu á skrifstofuna þrátt fyrir að hann þræddi fjallabaksleiðir fram hjá hraðbrautinni.

„Bad traffic, too many cars. Yesterday bank holiday today..“.

Hann veifar höndunum í áttina að vörubílnum sem er að troða sér inn fyrir framan okkur.

„Twenty-one you have to be to get license, twenty-one, Kuwaities know someone in ministry get license for family eighteen, nighteen. To young, not all brain there.“

Ljósunum er blikkað og hann keyrir út biðröðinni og siglir meðfram henni vinstra megin leitandi að nýju gati til að troða sér aftur inn í röðina.

„Even woman drive!“

Hann svínar fyrir bíl í æfingarkennslu, ung stúlka í svörtum kufli með burqa var aðeins seinni af stað en bíllinn á undan. Nýr Landcruser kemur siglandi upp að hliðinni á okkur við erum alveg við afreynina og hann hægir á sér til að hleypa honum inn, afturbrettið vantar á bílinn.

„See, Woman drivers“

Viti menn, við stýrið situr kona líka með burqa og gleraugu yfir því. Tvær mjóar slitur fyrir augun og gleraugu sem sitja á efninu í andlitsgrímunni, hún getur ekki haft neitt útsýni til hliðanna. Ég reyni mitt besta til að halda niðri í mér hlátrinum.

Kuwait city, 36 stiga hiti klukkan 8 um morguninn, það er víst farið að kólna.

Skólarnir eru að byrja svo að umferðin er býsna þétt. Muhammed Ali sem keyrir mig milli staða segir mér að meðal fjölskyldan eigi fjóra til átta bíla. Nýr bíll á hverju ári er vaninn hérna, vegirnir eru fjórar akgreinar í báðar áttir og dugar ekki til.
Ég lenti í gærkvöldi, er búinn að vera fjóra daga í Dubai en búinn að hafa of mikið að gera til að geta skrifað eitthvað. Vinna í 10 tíma á dag og labba um verslunarmiðstöðvar, það var einfaldlega of heitt til að gera eitthvað annað.

kuflar  snjónumDubai er enn jafn bráluð, byggingakranar allstaðar, flautandi bílar sem mynda órofna röð svo langt sem augað lítur. Leigubílstjórar sem sigla milli akgreina í pláss sem eru alls ekki til staðar. Þetta var í þriðja sinn sem ég kem til Dubai og ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af þessum stað. Ég fór auðvitað aftur í Mall of the Emirates stærsta mall utan norður ameríku og skoðaði skíðabrekkuna. Ég fór ekki á skíði en fékk að renna mér á slöngu. Það var eiginlega vinalegt að vera í 6 gráðu frosti mun vinalegra en 36 gráðu hitinn úti þó svo að það hafi verið loftkælinga lykt af andrúmsloftinu. Við Saju löbbuðum amk 3x fram hjá H&M í Mall of the Emirates á meðan við leituðum að því, fínasta líkamsrækt að fara í svona stór mall.

Deira City Center var líka vinalegt, kannski af því ég er farinn að rata þar eftir dvölina í fyrra. Ég nennti ekki að bíða í leigubílaröðinni og beið hana af mér á Churchill barnum í Sofitel City Center. Barinn var alveg eins, eina breytingin var að „gítargoðið“ Rix var með nýja söngstelpu. Við Rob vitum allt um barinn þar sem við þurftum að sitja þar öll kvöld síðasta Ramadam. Þá hafði okkur verið úthlutað daglegum drykkjar vouchers þar sem ekkert vín var í boði annarstaðar á hótelinu, auðvitað leiðir það til þess að drekka þarf út skammtinn fyrir hvern dag svo hann fari ekki til spillis. Þetta mun ekki gerast hér í Kuwait, hér eru hlutirnir mun stífari en í furstadæmunum. Ekkert áfengi í fríhöfninni, Kuwait Airlines bjóða að sjálfsögðu ekki upp á neitt annað en Halal mat og ekkert áfengi um borð.

Það er ekki komin mikil reynsla á Kuwait City en vonandi fæ ég tækifæri til að skoða mig um. Að minnsta kosti til að skoða turnana. Ég er bara búinn að vera í ónefndri húsgagnaverslun og þær eru allar eins. Vinalegar, kunnuglegar, heimavöllur í framandi landi. Það sem ég hef séð er útjaðarinn á borginni, villur, iðnaðarhverfi, og byggingarsvæði þar sem verið er að byggja … VERSLUNARMIÐSTÖÐ!

Miðausturlönd:

Telst maður hafa komið í land ef maður hefur farið út úr flugvél þar?

Föstudagskvöld í den Haag

Það er fullt tungl og stjörnubjart í den Haag. Karlsvaginn og Óríon sjást greinilega á himninum, fjósakarlarnir sjást samt ekki tölta á bak við fjósakonurnar fyrir borgarljósunum. Síðasta föstudag var ég staddur í „minnsta bæ í heimi“ Durbuy í Belgíu. Í smáhúsabyggðinni sem við gistum þá föstudagsnótt var mjög stjörnubjart. Ég var búinn að gleyma hversu miklu munar að standa utan ljósahjálms borgar og horfa upp í stjörnubjarta nótt. Það vantaði bara norðurlós til að gera þetta fullkomið.

Í þessu undarlega lífi mínu með fjölskylduna á Íslandi og sjálfan mig uppi á lofti í Den Haag þá gleður allt og hryggir á sama tíma.

Down the highway

Sneek, Joure, Heerenveen, Zwolle, Ermelo, Amersfoort, Utrecht, Waddinxveen, Rijsweik, Den Haag. Kannski það sé skynsamleg ástæða fyrir því að það séu ekki sungin lög um Hollenska þjóðvegi. Bob Dylan passaði samt ágætlega

Well, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Yes, I’m walkin’ down the highway
With my suitcase in my hand.
Lord, I really miss my baby,
She’s in some far-off land.

Ég fór löngu leiðina heim frá Sneek. Við vorum í afmælisfagnaði sem fór fram við Sneekermeer, lítið vatn rétt utan við bæinn. Deginum var varið í ró og næði á vatnsbakkanum þar sem Fríslendingar fjölmenntu. Það var heitt og fallegt veður og vatnið var volgt svo við Ilse gátum synt yfir vatnið.

Kvöldið áður enduðum við Guðlaug úti á lífinu í Sneek, sem reyndist vera merkileg lífsreynsla. Einn barinn var fullur af körlum sem stóðu í pörum og skiptust á að tala við konurnar sem komu inn. Sennilega búnir að stúdera alt.seduction.fast til hins ítrasta. Sá næsti var merkilegur fyrir sakir „veggs hinna vongóðu“ sem var bekkur við vegg barsins sem fólk prílaði upp á til að skaka sig á og á síðasta pöbbnum var nokkurs konar Andre Hazes kareooke. Já ég mæli eindregið með skemmtanalífinu í Sneek.

Ég er einn í Hollandi og þarf að finna mér eitthvað til að hafa fyrir stafni um helgar. Þessi helgi var afmæli og næturlífið í Sneek. Næturlíf síðustu helgar var í Brussel. Mágkona mín elskuleg var þar á frönskunámskeiði og ég fékk að gista hjá henni og vinkonu hennar í næstu götu við fæðingarstað Jacques Brel. Við fórum á markað, héngum á la Grand Place, skoðuðum jafnréttisstefnu í verki og ég skemmti mér konunglega. Ég held að ég haldi áfram í Belgíu á næstunni bæði Bruges og Ghent eru í næsta nágrenni og síðustu helgi hófst Gentse Feesten í Ghent sem á að vera risa götuhátíð í einni af fallegustu borgum Evrópu.