Ég komst aftur til baka frá Bucharest. Jón fór um miðjan dag á fimmtudeginum og ég átti flug eldsnemma að morgni tuttugasta og fjórða. Auðvitað var ég vinnandi fram á kvöld, en fékk þó 2 kls. ökuferð um borgina á meðan skyggði, sá Höll fólksins og smá brot af borginni áður en ég var keyrður aftur á hótelið að borða einmanna kvöldverð og fór snemma í rúmið. Næturlíf í Rúmeníu bíður betri tíma, enda ekki hægt að læra mikið um borg á innan við tveimur sólarhringum.
Ég vaknaði eldsnemma um morguninn og fór niður að finna leigubílinn sem átti að bíða eftir mér. Að aflokinni reikistefnu í andyrinu tilkynnti annar næturvörðurinn að hann ætlaði að keyra mig. Á leiðinni var útskýrt fyrir mér af hverju þeir hringdu ekki á leigubíl. Aðrir gestir höfðu kvöldið áður verið stungnir af á flugvellinum. Þeir höfðu farið inn á flugstöðina að taka út pening fyrir leigubílnum og bílstjórinn notað tækifærið og stungið af með töskurnar þeirra og veski. Þar sem þetta var ekki í fyrsta skipti þá höfðu þeir ákveðið að keyra mig sjálfir. Við keyrðum af stað í snjókomu á dimmum vegi sem liggur utan við Bucharest, hringinn í kringum borgina. Vegamerkingar voru mjög takmarkaðar, hér og þar mátti sjá móta fyrir miðlínu á veginum og engin lýsing fyrir utan týruna á bílnu. Einhverjir leigubílstjórar leika víst þann leik líka að bíllinn þeirra „bilar“ á þessari leið og „óþekktir“ ræningjar birtast skyndilega.
Veðrið var hundleiðinlegt en ég komst tímanlega á flugvöllinn. Þar var hægt að kaupa kaffi á einum bás en annars var allt lokað. Út um allt sat reykjandi fólk en ég gat þó fundið reyklítið horn og komið mér fyrir með bók.