Jón segir að Bucharest minni á Kópavog. Síma og rafmagnssnúrur hlykkjast á milli húsa. Fyrir utan veitingarstaðin sem við fórum á á gær höfðu greinar verið sagaðar af trjánum við veginn og snúrurnar lagðar upp á stúfana sem stóðu út af stofninum.
Felst hús sem við keyrum framhjá eru afgirtir og görðunum lokað með hliði, komandi frá Hollandi þar sem húsin standa þétt við götuna og það eru engin gluggatjöld þá virka girðingarnar fráhrindandi.
Hótelið sem við gistum á er talsvert fyrir utan borgina. Það stendur á eiði eða eyju út í stöðuvatni sem eitt sinn var hluti af einni af þremur ám sem renna gegnum Bucharest. Rúmlega 250 ára kastali sem hefur verið breytt í hótel. Bæði kastalinn og hótelið komin til ára sinna, rúmin óslétt og hundsgá úr nálægum skógi hélt fyrir mér vöku. En staðsetningin var falleg og kastalinn gæti orðið það líka, eftir svona milljón evrur eða svo.
Ég spyr Octavian um hundana og hann segir mér að flækingshundar séu vandamál í Bucharest. Fólk vilji ekki að þeim sé útrýmt og sumir gangi svo langt að fæða ákveðna hunda til að halda þeim nálægt húsum sínum. En eftir að Japanskur túristi var bitinn til bana niðri í miðbæ nýlega þá hafi þetta breyst. Nú sé verið að útrýma hundunum og þeir sem komi þeim til varnar séu gerðir ábyrgir fyrir þeim. Ég sé samt ræfilslega og óhirta hunda hér á þar á meðan við skröltum í gegnum holurnar og þvottabrettin sem hér kallast götur.