Mánaðarsafn: nóvember 2005

Ritskoðun

Michael Jackson
þetta minnir á gamalt Rockwell/Michael Jackson lag

Ofsaakstur

Á 160-180 kílómetra hraða á leiðinni frá Abu Dhabi til Dubai verða trén sem búið er að panta í þunnt belti meðfram veginum ennþá óraunverulegri. Plasttré í eyðimörkinni.

Það var bíll í Abu Dhabi sem ég hefði getað keyrt til baka, ef ég hefði haft ökuskýrteinið með mér. En mig langar ekki að lenda í móttökunni hjá lögreglunni í Furstadæmunum, auk þess sem aksturslagið hér er frekar brjálæðislegt. Við ætluðum að taka leigubíl en einn af IKEA strákunum bauðst til þess að keyra okkur. Við setjumst inn í bílinn hans, gamla Toyotu, grínumst við hann hvort hann keyri jafn skelfilega og leigubílstjórarnir, hann hlær og gefur í. Hann keyrir á 120-30 innan Abu Dhabi og á 160-80 þegar komið er út úr mestu umferðinni. Við sitjum stjarfir af hræðslu, en hann lagar sætið, hringir í kærustuna, sendir SMS án þess að slá af. Þegar mesta hræðslan fer að brá af mér þá spyr ég hann af hverju bíllinn hans pípi ekki þegar hann er kominn fyrir 120. Hann segir það vera vegna þess að bíllinn hans sé fluttur inn frá Ameríku. „Allir bílar sem eru seldir hér nýjir eru með píptæki. Gamli bíllinn minn var sípípandi, það var óþolandi“ segir hann og hlær. „Þetta er miklu betra“

Hann veit um allar myndavélarnar á leiðininni og hverjar eru plat og hverjar ekki. Akgreinarnar er aðgreindar með litlum misfellum svo bíllinn hristist og gefur frá sér hljóð þegar hann skiptir um akgrein, eða gleymir sér í einhverri sögunni svo bíllinn lekur að akgreinamótunum. „Einu sinni sofnaði ég undir stýri á leiðinni“ segir hann í eitt skiptið. „Vaknaði bara þegar ég heyrði whump whump í ójöfnunum.“ og svo fer hann að spyrja Ástralíufarann Remco hvort það sé satt að menn læsi stýrinu, setji á cruise control og sofi á Highway1 milli Perth og Sidney sem er sagður lengsti beini malbikaði vegur í heimi. Ég held fastar í handfangið á hurðinni

Við keyrum fram hjá bílhræi í vegarkantinum og förum að tala um slys; Ég segi honum frá slysinu sem við Saju keyrðum fram hjá á leiðinni til Abu Dhabi. Fimm bílar í vegarkantinum, einn á hvolfi með samanfallinn topp og stórt gat á framrúðunni, maður liggjandi í vegarkantinum framan við bílinn. Hann segir okkur að þetta gerist vegna þess að það séu alltaf einhverjir sem keyri of hægt á akgreininni lengst til vinstri. Hann hafi einu sinni lent í slysi fyrir utan Dubai, keyrandi á 100 mílna hraða, þegar bíllinn fyrir framan hann stoppaði allt í einu skyndilega. Hann rétt náði að stoppa, „svona langt frá bílnum“ segir hann og lyftir höndunum upp frá stýrinu með eitthvað um 20cm bil á milli þeirra. „En,“ heldur hann áfram „jeppinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur og keyrði aftan á mig. Allur bíllinn gekk saman. Gírkassinn féll niður, sætið gekk fram svo ég rak hnén í mælaborðið og skottið gekk inn í aftursætið. En þetta var ekki mér að kenna!“ Við höldum áfram á sama hraðanum. Ég er farinn að vona að hvað sem veldur því að „check engine“ ljósið í mælaborðinu logir fari að stoppa bílinn. Ljósunum er blikkað á bíla sem ekki víkja nógu hratt til hægri og ef það dugar ekki flautað. Aldrei stigið á bremsuna. Í eitthvert skiptið sem mér finnst bíllinn sem skyndilega er mér á hægri hönd vera full nálægt rísa hárin á höndunum á mér. „Er þér kalt? Við getum opnað hérna.“ og svo teygir hann sig upp og fer að opna topplúguna.

Sem betur fer erum við bara rétt rúma klukkustund að fara þessa 125 kílómetra. Við Remco erum svolítið óstöðugir á fótunum þegar við löbbum inn á hótelið, næst ætlum við að labba.

Kvöldstemming í Abu Dhabi

Leigubílabiðröðin fyrir utan Marina Mall rennur rólega áfram. Flissandi unglingsstúlkur í svörtum mussum með höfuðklút (hijab) standa fyrir aftan okkur Remco, Diesel skór og gallabuxur undir svörtum kuflum, ein þeirra með Niqab, allt andlitið nema augun hulin. 6 manna fjölskyldan á undan okkur treður sér inn í Toyota. Unglingsstrákur í framsætið, faðir og móðir aftur í með tvær litlar stelpur í fanginu og þriðja barnið við hliðina á sér. Leigubílstjórinn gefur harkalega í, þau þjóta burtu og röðin kemur að okkur.

Leigubíllinn keyrir með okkur meðfram stöndinni. Báðu megin við veginn er fólk á gangi, hópar af fólki sitja í grasinu með Sheesha á milli sín. Aðrir sitja að tafli og á nokkrum stöðum má sjá neistaflug frá litlum eldum þar sem fólk er að grilla.

Við Howard Johnsson hótelið eru hlutirnir ekki svona vinalegir. Bílstjórinn talar eitthvað um „chinese“ þegar við stígum út úr bílnum, við erum fljótir að skilja hann. Í anddyrinu er löng biðröð eftir lyftu og í biðröðinni synda um austurlenskar stúlkur sem bjóða upp á „nudd“.

Ég geng frá dótinu mínu og sigli í lyftunni niður á aðra hæð þar sem eiga að vera veitingastaðir og barir. Allir staðirnir eru pínulitlar holur fullir af hvítum kuflum og reykmettaðir, ég er fljótur að flýja þaðan. Enski barinn „The Cellar“ er utan við hótelið. Ég sest niður með bjór, á pínulitlu sviði standa þrjár stelpur með bassa og hljómborð og spila Shakira, söngkonan er ágætis dansari en mun síðri söngkona.

Á 17. hæðinni reynast vera heilir þrír skemmtistaðir. Á einum þeirra standa þrjár konur upp á sviði og syngja á arabísku, enginn bar. Hinir tveir staðirnir reynast fullir af fólki frá Filipseyjum. Annar er með live tónlist meiri Shakira, í þetta skipti getur stúlkan sungið en vinkonur hennar tvær á bakröddunum hrista aðeins haddinn í takt við tónlistina. Þegar byrjað er á Bon Jovi lagi, með salsatakti, stígur þéttvaxinn strákur fram og söngkonan stígur aftur og tekur þátt í „dansinum“. Diskótekið er pakkað, dansgólfið er pínulítið og hátalarinn fyrir ofan hausinn á mér er rifinn. Minnir mest á Bíóbarskjallarann, nema hvað fólkið er ekki í jafn annarlegu ástandi og dansar minna. Flest allir gestarnir virðast vera frá Filipseyjum, nema nokkrir arabískir strákar sem kunna öll hiphop danssporin. Ég ákveð að flýja niður á hótelherbergið og fara að sofa, hefði betur farið í göngutúr meðfram ströndinni.

Á leiðinni til Dubai

Eftir að þægilega flugið um morguninn var fellt niður og kvöldfluginu seinkað verður erfitt að sofna um borð. Maður er vakinn af flugfreyjum sem keyra um með matarvagna, ruslvagna, tollfría vagna, hestvagna, löngu hættur að vita hvort að bíómyndin er draumur eða ekki. Hálf svenfdrukkinn dregst ég aftur á klósettið og stend þar við hliðina á 6 ára stelpu sem er orðin græn í framan, litli bróðir hennar liggur sofandi í hinum þremur sætunum og ein þreytt mamma stendur í ganginum og reynir að fá stelpuna til að drekka engiferöl. Þau koma frá Bandaríkjunum segir mamman mér, komu fljúgandi frá Seattle og lentu átta um morguninn á Schiphol, voru líka farþegar í fluginu sem fellt var niður. Börnin ekki búin að sofa rúma í tvo sólarhringa og stelpan að verða flugveik. Skal engan undra.
Stelpan hressist við við engiferölið og skrýtna manninn sem segir hana duglega og segir henni tröllasögur af skíðabrekkum í verslunarmiðstöðum. Ég ákveð að hætta að vorkenna sjálfum mér og flý undan morgunverðarvagni í sætið mitt.

Borgarstjórnarkostningar

Þetta er ekki mitt mál lengur, hvorki Gísli Marteinn né Vilhjálmur eru í framboði í den Haag, hvað þá Kópavogi. En skoðanakönnun á visir.is sýnir óvæntar niðurstöður.

Fylgi án endurtekinna iptala:

Einkvæmar IP tölur

Fylgi með endurteknum iptölum:

Allar IP Tölur

Ég er ekki tölfræðisnillingur, en ég sé ekki að þessi munur skýrist einungis af þeim sem tvísmella á senda eða eru bak við NAT/PAT. Annar hvor aðilinn hlýtur að sitja heima og margkjósa.


Tækniskýringin, þessar tvær myndir eru fengnar frá stod2.visir.is og eru birtar beint upp úr gagnagrunni með fyrirspurn sem sést sem slóðin á myndirnar.
Ef þú smellir á mynd og skoðar slóðina þá sést að hún endar á ExcludeDuplicatedIP=true, breyttu true í false (í address línunni, og smelltu svo á enter), þá er myndin teiknuð upp aftur eftir nýrri fyrirspurn sem telur allar iptölur sem svöruðu en sleppir ekki þeim sem eru endurteknar.

DSC01646Hornið okkar Hvernig á að segja frá fimm mánuðum í stuttri vefdagbókfærslu, ég vil gjarnan muna þetta sjálfur svo hér koma stuttaralegar myndskýringar.

Hotel StansteadWeeping WillowEftir að hafa verið einn á vergangi í Reykjavík í tæpa tvo mánuði var erfitt að hætta. Því ákvað ég, með dyggri hjálp Iceland Express, að gista á þessum fallega gangi á Stanstead á leið minni til Hollands. Þar var félagsskapur góður en rúmin full hörð. Á meðan ég gisti í góðu yfirleiti í gólfum í Englandi og Þverholti var restin af fjölskyldunni uppekin við að borða Cheerios hjá Olgu og stóð í stríði við að fá gáminn okkar frá Rotterdam. Hollendingar hafa gaman af stimplum og eyðublöðum og öðrum formlegheitum og því tók það hátt í fimm vikur að fá gáminn lausian og innbúið okkar á sinn stað. Á meðan var víst líka hægt að skemmta sér við að sækja um landvistarleyfi. En það tók mig tvo mánuði að fá viðtal við útlendingaeftirlitið í den Haag þar sem ég gat sótt um landvistarleyfi, svarið kemur svo innan sex mánaða. Kristín lenti í meiri raunum en ég ætla ekki að rekja þær.

StjörnubúðVnberjauppskeraVið búum í stjörnum skrýddri íbúð í Bomenbuurt sem er rólegheita hverfi nálægt stöndinni, rétt við litla og vinalega verslunargötu. Það vaxa vínber í garðinum okkar í ár var uppskeran góð en fór öll í ruslið þar sem ég var óviðbúinn því hversu mikil hún var. Á næsta ári verður reynt að gera Krakkarnir ganga í skóla sem er rétt á næsta horni og þurfa ekki að mæta fyrr en 08:30, sem er ótrúlega mikill munur frá því síðasta vetur þegar við þurftum öll að vera mætt klukkan átta. Já mér þykir gott að sofa á morgnana. Við erum bíllaus og þykir það ágætt, ég get fengið far í vinnuna og Hollenskar almenningssamgöngur virka mjög vel. Já það er gott að vera í Niðurlöndum. Helstu ókostirnir hafa hingað til verið nágrannakötturinn sem skeit á gólfteppið og blessuð skriffinskan sem er samt hreinasta hátíð við hliðina á þeirri Búlgörsku.

LödusafnDubaiÉg er líka búinn að vera mjög heppinn. Er búinn að fara til Dubai og Sofia á vegum vinnunnar að sinna spennandi verkefnum. Þetta munu seint teljast líkir staðir og fólkið sem ég hef kynnst þar er líka ólíkt, en skemmtilegt. Hápunktur eru Búlgarskir leigubílstjórar sem rukka allt frá 2 – 40 lev fyrir sama túrinn og reyna að fá árrislula ferðalanga til að stoppa á "gentlemans club" á leiðinni á flugvöllinn. Svo keyra þeir eins og vitleysingjar, liggja á flautunni og kjafta hver við annan út um gluggann, á ferð. Algjört uppáhald var sá sem reif í hálsmenið mitt, spurði "chicken?", baðaði höndunum eins og kjúklingur og hló að mér alla leiðina niður á Grand Hotel Sofia. Því miður var ekki búið að opna skíðabekkuna í Mall of the Emirates þegar ég í Dubai um daginn en ég er að vonast til þess að geta náð einni salibunu með myndum þegar ég fer þangað næst.