Ofsaakstur

Á 160-180 kílómetra hraða á leiðinni frá Abu Dhabi til Dubai verða trén sem búið er að panta í þunnt belti meðfram veginum ennþá óraunverulegri. Plasttré í eyðimörkinni.

Það var bíll í Abu Dhabi sem ég hefði getað keyrt til baka, ef ég hefði haft ökuskýrteinið með mér. En mig langar ekki að lenda í móttökunni hjá lögreglunni í Furstadæmunum, auk þess sem aksturslagið hér er frekar brjálæðislegt. Við ætluðum að taka leigubíl en einn af IKEA strákunum bauðst til þess að keyra okkur. Við setjumst inn í bílinn hans, gamla Toyotu, grínumst við hann hvort hann keyri jafn skelfilega og leigubílstjórarnir, hann hlær og gefur í. Hann keyrir á 120-30 innan Abu Dhabi og á 160-80 þegar komið er út úr mestu umferðinni. Við sitjum stjarfir af hræðslu, en hann lagar sætið, hringir í kærustuna, sendir SMS án þess að slá af. Þegar mesta hræðslan fer að brá af mér þá spyr ég hann af hverju bíllinn hans pípi ekki þegar hann er kominn fyrir 120. Hann segir það vera vegna þess að bíllinn hans sé fluttur inn frá Ameríku. „Allir bílar sem eru seldir hér nýjir eru með píptæki. Gamli bíllinn minn var sípípandi, það var óþolandi“ segir hann og hlær. „Þetta er miklu betra“

Hann veit um allar myndavélarnar á leiðininni og hverjar eru plat og hverjar ekki. Akgreinarnar er aðgreindar með litlum misfellum svo bíllinn hristist og gefur frá sér hljóð þegar hann skiptir um akgrein, eða gleymir sér í einhverri sögunni svo bíllinn lekur að akgreinamótunum. „Einu sinni sofnaði ég undir stýri á leiðinni“ segir hann í eitt skiptið. „Vaknaði bara þegar ég heyrði whump whump í ójöfnunum.“ og svo fer hann að spyrja Ástralíufarann Remco hvort það sé satt að menn læsi stýrinu, setji á cruise control og sofi á Highway1 milli Perth og Sidney sem er sagður lengsti beini malbikaði vegur í heimi. Ég held fastar í handfangið á hurðinni

Við keyrum fram hjá bílhræi í vegarkantinum og förum að tala um slys; Ég segi honum frá slysinu sem við Saju keyrðum fram hjá á leiðinni til Abu Dhabi. Fimm bílar í vegarkantinum, einn á hvolfi með samanfallinn topp og stórt gat á framrúðunni, maður liggjandi í vegarkantinum framan við bílinn. Hann segir okkur að þetta gerist vegna þess að það séu alltaf einhverjir sem keyri of hægt á akgreininni lengst til vinstri. Hann hafi einu sinni lent í slysi fyrir utan Dubai, keyrandi á 100 mílna hraða, þegar bíllinn fyrir framan hann stoppaði allt í einu skyndilega. Hann rétt náði að stoppa, „svona langt frá bílnum“ segir hann og lyftir höndunum upp frá stýrinu með eitthvað um 20cm bil á milli þeirra. „En,“ heldur hann áfram „jeppinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur og keyrði aftan á mig. Allur bíllinn gekk saman. Gírkassinn féll niður, sætið gekk fram svo ég rak hnén í mælaborðið og skottið gekk inn í aftursætið. En þetta var ekki mér að kenna!“ Við höldum áfram á sama hraðanum. Ég er farinn að vona að hvað sem veldur því að „check engine“ ljósið í mælaborðinu logir fari að stoppa bílinn. Ljósunum er blikkað á bíla sem ekki víkja nógu hratt til hægri og ef það dugar ekki flautað. Aldrei stigið á bremsuna. Í eitthvert skiptið sem mér finnst bíllinn sem skyndilega er mér á hægri hönd vera full nálægt rísa hárin á höndunum á mér. „Er þér kalt? Við getum opnað hérna.“ og svo teygir hann sig upp og fer að opna topplúguna.

Sem betur fer erum við bara rétt rúma klukkustund að fara þessa 125 kílómetra. Við Remco erum svolítið óstöðugir á fótunum þegar við löbbum inn á hótelið, næst ætlum við að labba.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s